16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (4277)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Pétur Halldórsson:

Það má e. t. v. segja, að þetta frv. sé ekki mjög stórvægilegt í sjálfu sér, af því að þær bækur, sem hér er um að ræða, eru ekki ákaflega stór liður í búskap þjóðarinnar né hvers heimilis í landinu. En þó er það svo, að með því er gert, ef að lögum verður, töluvert rask á því sviði, um það nær yfir, og ég held, að það hefði í för með sér ýmsar afleiðingar, sem ekki verða fyllilega séðar á yfirborðinu. Þó að þeir verði e. t. v. ekki margir, sem verða fyrir erfiðleikum í viðskiptum sínum vegna ákveða frv., þá ber að sjálfsögðu að taka það til athugunar um leið og n. fer sínum höndum um málið, hverjar þær afleiðingar yrðu.

Það er tvennt, sem frv. fer fram á. Í fyrsta lagi, að útgáfa námsbóka í barnaskólum, og sennilega einnig í æðri skólum samkv. 7. gr., verði lögð í hendur ríkinu. Og í öðru lagi, að þessar bækur verði hafðar til sölu í skólunum af skólastjóra eða þeim, sem hann skipar til þess. Þetta á að vera með það fyrir augum, að bókakostur nemenda verði sem ódýrastur, og er það réttmæt og eðlileg höfuðástæða, ef líklegt þykir, að þeim árangri yrði náð. Um það atriði út af fyrir sig er ekki hægt að ræða við 1. umr.

Ég býst ekki við að tefja hv. d. mikið við þessa umr., þar sem hæstv. fjmrh. lagði til, að málinu yrði vísað til menntmn. Ég á sæti í þeirri n. og gefst því þar tækifæri til að koma fram með mínar aths. En ég vil strax benda á það, að þó sá heimur sé lítill, sem hér á að taka til „skipulagningar“, þá er hann dálítið merkilegt atriði í þjóðlífi voru, og mér þykja talsverðar líkur benda til, að ef þessi hluti bóka er tekinn frá þeim, sem nú fara með bóksölu í landinu, þá geti það haft óheppilegar afleiðingar. Það má óneitanlega segja, að hér sé um að ræða þann hluta af þeirri vöru, sem bóksalarnir verzla með, sem tryggast er, að einhvern ágóða gefi. Ég á hér sízt við aðstöðu bókaverzlana hér í Reykjavík, en ég álít, að ef taka á sölu kennslubókanna af bóksölum úti um land, þá geti e. t. v. orðið erfitt að fá menn til þess að selja aðrar bækur. Það er t. d. eitt atriðið, sem búast má við, að af þessum ráðstöfunum geti leitt.