22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (4303)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Þegar um það er að ræða, hvort betra sé að gefa skólabækur út af ríkinu eða með þeim hætti, sem hingað til hefir viðgengizt, þá eru það nokkur atriði, sem gera verður upp, með hvoru fyrirkomulaginu náist betri árangur. Ég vil ekki ganga framhjá því, að höfuðmarkmiðið er, að nægilega mikið og nægilega vel samið les- og námsefni sé fyrir hendi handa skólunum að fjalla um. Nú er það vitað mál, að það er ekki á færi annara en æfðra kennara að velja slíkt efni og skera úr um það, hverju eigi að bæta við eða breyta í nýrri útgáfu af einhverri bók. Ég vil benda á í þessu sambandi, að þegar öll skólastarfsemi er að taka stakkaskiptum og komast af frumstiginu hér hjá okkur, þá er það vitanlega fjarstæða, ef það ætti að vera komið undir geðþótta bókaútgefenda, hvaða bækur væri kostur á að nota. Einstaklingar mundu ekki taka sig fram um neinar nýjungar á þessu sviði, heldur nota þær útgáfur, sem þegar eru til, meðan þær entust. Ef ríkið hefði þetta á hendi, væri öðru máli að gegna, þá mundi yfirstjórn fræðslumálanna sjá um, að til væru hinar beztu bækur í hverju fagi. Ég man ekki eftir því, að í nokkur ár hafi komið út bók hjá bóksala í nýjum námsgreinum, sem í raun og veru var ekki undirbúin af kennara. Í sumum námsgreinum, sem teknar hafa verið fyrir í barnaskólunum, eru jafnvel engar bækur til. t. d. í átthagafræði, sem nú er farið að kenna í barnaskólum. Þar er ekki önnur kennslubók til en lítill leiðarvísir fyrir kennara, sem einn kennari var fenginn til að taka saman. Þannig er augljóst, að þessum málum er betur borgið í höndum ríkisins en höndum bóksalanna.

Þá er það annað atriði, sem skiptir miklu og búið er að ræða nokkuð um hér, en það er frágangur bókanna. Það atriði skiptir ekki síður miklu máli um þessar bækur, sem daglega eru notaðar, og það af börnum, sem ekki kunna að fara með þær. Og þó að hv. 5. þm. Reykv. tali ókunnuglega um þetta, þá er það vitað mál, að til eru kennslubækur, sem er ákaflega mikið ábótavant í þessu efni. Ég minnist sérstaklega tveggja bóka í þessu efni, sem mjög eru lélegar að frágangi. Þær eru ekki útgefnar af forlagi, heldur af einstökum mönnum, sem sýnilega hafa ekki haft efni á að gera þær betur úr garði, sem eðlilegt er. Því verður ekki neitað, að þannig er ástatt með allmikinn hluta þessara bóka. Hitt dettur mér vitanlega ekki í hug að segja, að svo sé um allar skólabækur, sem löggiltar eru, því það nær vitanlega ekki nokkurri átt.

Ég skal játa, að löggilding skólabóka getur að vísu haft áhrif á það, hvaða bækur eru gefnar út, en hún getur ekki eins og er haft frumkvæði að útgáfu þeirra. Menn koma með handrit og óska að fá þau löggilt, og þegar ekki er vitað um, að von sé á öðru betra, þá þykir það hart, ef synjað er um löggildingu, þó menn séu ekki allskostar ánægðir með hana, en það er ekki á betra völ, eins og löggildingunni er fyrir komið.

Þegar um það er að ræða, hvort ríkisútgáfa sé heppileg eða ekki, þá er verð bókanna vitanlega eitt af því, sem skiptir miklu máli. Það er augljóst af þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu, að það er hægt að selja bækur í fyrstu útgáfu ódýrar heldur en nú er gert, og með hagkvæmari nýtingu en tíðkazt hefir. Eins og á stendur nú, þá þarf hvert barn hvað eftir annað að skipta um bækur, ef það fer milli deilda, eða þó ekki sé nema skipt sé um kennara, þá er foreldrum boðið að leggja til nýjar bækur, kannske oft á vetri, kannske aðeins fyrir það, að kennarinn felli sig betur við að nota aðra bók. Þetta getur verið í einstökum tilfellum. En hitt ræður engu síður, eins og tekið var fram af hv. þm. V.-Ísf., að menn eru vanir einhverjum vissum bókum og vilja ekki draga fjöður yfir það.

Inn í þennan eltingarleik um það, hvaða bækur eigi að kaupa, geta einnig komið beinlínis hagsmunalegar „interessur“. Það eru til skólar hér á landi, sem eru áskrifendur að vissum bókum af hagsmunalegum ástæðum. Og það eru til kennarar, sem „agitera“ fyrir og nota vissar bækur af svipuðum ástæðum. Þessi togstreita, sem að vísu er um mjög smávægilega hagsmuni, en kemur þó greinilega fram, bitnar á börnunum og foreldrum þeirra, og hún dettur algerlega úr sögunni, þegar ekki er um annað að ræða heldur en að nota ríkisútgáfubækurnar. Það eru talsverð brögð að þessu, og það er leiðinlegt og veldur mikilli óánægju. Fólki sárnar eðlilega að þurfa að tvíkaupa bækur í sömu námsgrein, án þess sjáanlegar ástæður séu til. Þó næst liggi hverjum kennara að nota þá bók, sem hann fyrst hefir lagt til grundvallar við kennslu sína í hverri grein, þá ætti fæstum að vera ofætlun að skipta um. Og engum myndi finnast, að nokkru væri tapað, þó einungis væri um ríkisútgáfubækurnar að ræða. Þegar alls er gætt, eru það ekki þægindi kennaranna né hagsmunir útgefenda, heldur fólksins og barnanna, sem á að taka tillit til.

Viðvíkjandi bókaskorti barna og bókagjöfum kennara til þeirra vil ég taka þetta fram: Ég ímynda mér, að hv. 5. þm. Reykv. viti það vel, þar sem hann hefir lengi verið í skólanefnd hér, að frameftir vetri kemur hér í skólana hópur af börnum bókalaus. Þeim er skipað að kaupa bækur og áminnt um það hvað eftir annað, en samt dregst það fram eftir öllum vetri. Annaðhvort hafa þau enga aura til fyrir bækurnar, eða um er að kenna kæruleysi foreldra eða barna. Og það eru dæmi til þess, að kennurum hefir gramizt svo þetta bókaleysi, að þeir hafa sjálfir látið af hendi fé til bókakaupa. Ég veit að vísu, að til eru í lögum ákvæði um ráðstafanir, sem eiga að koma í veg fyrir, að börn þurfi að vera bókalaus fyrir fátæktar sakir, en það er einhvernveginn svo um framkvæmd þeirra ákvæða, hvernig sem á því stendur, að þessarar aðstoðar leita færri en þyrftu. Hvort sem það er af því, að tregða sé á að fá þetta, eða að almenningur veit ekki um rétt sinn í þessu efni, þá leyfi ég mér að fullyrða, að þessi lagaheimild sé minna notuð en skyldi, og það bitnar á skólastarfinu og þeim kennurum, sem eru of áhugasamir til þess að láta sér á sama standa, hvort börnin hafa bækur eða ekki.

Hv. 5. þm. Reykv. taldi, að foreldrum væri ekki þungur baggi bundinn með bókakaupum eins og nú er, svo þeirra hluta vegna væri ekki ástæða til að gera miklu byltingu hvað löggjöf um bókaútgáfu snertir, og taldi til í því sambandi ýms framlög önnur, sem hið opinbera léti í té til ókeypis kennslu, matgjafa o. fl. Það er rétt, að hið opinbera ber ærinn kostnað af skólahaldi barna. En slíkt getur aldrei réttlætt það ef kostur væri að hafa bækur ódýrari heldur en þær eru, að það sé eigi gert. Og þótt ekki sé um meiri kostnað en þetta að ræða, þá er það þó svo, að kennslubókakaupin eru fátækum og barnmörgum heimilum talsvert þungur skattur. Svo vill það nú ganga þannig, að auk námsbókanna er ýms annar kostnaður í sambandi við skólagöngu barnanna. Þau biðja um aura til eins og annars, fólkinu leiðist, ef ekki er hægt að láta það eftir og börnin taka það oft nærri sér. Það eru til skólar hér á landi, þar sem stéttamunurinn er það mikill, að börnin finna vel til þess, hver eru illa sett í lífinu og hver eru betur sett. Og því er ástæðulaust, þrátt fyrir ókeypis kennslu, matgjafir og lýsisgjafir, að bera á móti því, að æskilegt væri að lækka bókaverðið.

Það er ekkert til að hæla sér af, þó hið opinbera beri allþungar byrðar af uppfræðslu og skólahaldi barna. Það er talin skylda þjóðfélagsins að sjá föngum fyrir viðurværi, svo þeir séu óskemmdir af þegar þeir sleppa úr fangelsi. Með lögum eru börnin skylduð til að inna af hendi visst starf ár eftir ár í þágu þjóðfélagsins. Og námið, sem á börnin er lagt, er það mikil þrekraun, að það er margviðurkennd skylda þjóðfélagsins að sjá þeim fyrir nægilegu og hæfilegu viðurværi á meðan þau fást við það. Það er a. m. k. slæm „forretning“ að gera það ekki.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um, að hér væri ekki um mikið efnahagsspursmál að ræða. Það er rétt, að það eru ekki stórar fúlgur, sem kaupsala þessara bóka veltur á. En það var nú samt að heyra á þessum sama hv. þm. við fyrri umr. málsins, að þetta væri svo mikið fjárhagsatriði, að búast mætti við, að atvinna ýmsra bóksala legðist í rústir, ef frv. kæmi til framkvæmda. Einkaútgáfa skólabókanna er líka ljósastur vottur um það, að mönnum finnst þeir hagnast á henni. Menn vita og hafa reynslu fyrir því, að margt er óefnilegra en að gefa út kennslubók. Allt að helmingur þeirra kennslubóka, sem nú eru notaðar, eru gefnar út af „privat“ mönnum, vitanlega ekki þeim til tjóns, heldur hvort á móti.

Vilji menn halda því fram, að núv. ástand á þessu sviði skapi fjölbreytni og mikið úrval af bókum í sömu grein, þá vil ég benda á, að það eru ekki margar hliðstæðar og álíka góðar kennslubækur, sem við þurfum að fá, heldur mikið og gott lesefni í hverri grein, hvort sem nú heppilegra þykir að gefa það út í einni bók eða fleiri heftum. Takmarkið er ekki tvær Íslandssögur, sem hvorug ber af annari, heldur ein, sem hefir allt inni að halda, sem hæfilegt þykir, að barnið nemi í þeirri grein. Og því takmarki er auðveldast að ná með ríkisútgáfu.

Þá langar mig til að víkja að brtt. á þskj. 351. Mér skilst, að samkv. 4. brtt. eigi yfirleitt að fela bóksölum útsölu kennslubókanna gegn 20% þóknun, en skólastjórar hafi hana aðeins með höndum, ef nauðsyn krefur. Ég get sætt mig við, að þóknunin fyrir söluna sé þetta — það er ekki nema hóflega í lagt —, en að ákveða, að bóksalar hafi útsöluna þar, sem því verður við komið, þótt jafnvel skólastjóri kynni að óska eftir að hafa hana, það finnst mér of hart að orði kveðið. Ég vildi heldur snúa þessu við, þannig að skólastjórar annist útsöluna að jafnaði, en heimilt sé að fela hana bóksölum gegn þessari þóknun.

Þá er 7. brtt. þess efnis, að kennslubækur barnaskóla skuli jafnan ganga fyrir við útgáfustarfsemina. Þessi viðbót er ég ekki viss um, að sé til neinna bóta. Það má gera ráð fyrir, eins og högum er háttað hjá okkur nú, að fyrst í stað yrðu aðallega gefnar út kennslubækur fyrir barnaskóla. En í vissum námsgreinum, sem kenndar eru í gagnfræða- og lýðskólum, er svo mikill hörgull á sæmilegum námsbókum, að ef það væri ekki bannað í l., er ekki ólíklegt, að beinlínis yrði farið fram á að vind, bráðun bug að því að bæta úr þeim skorti. Sé ég ekkert á móti, að slíkum bókum væri skotið inn í, þegar nauðsyn þætti til. — Fleira sé ég svo ekki ástæðu til að segja um þetta mál.