08.12.1934
Neðri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (4348)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Thor Thors:

Hæstv. forseti sagði, að þetta mál snerti ekki það frv., sem hér er um að ræða, en ég held einmitt, að það skipti máli, og það mjög verulega. Það hefir verið vikið að því af ræðumönnum Sjálfstfl., að ef ríkið ætti að gefa út skólabækur, þá mætti þar beita pólitískri hlutdrægni, og nú hefir hv. 11. landsk. tekið það mjög greinilega fram, að það sé nú þegar farið að veita ríkisstyrk til að gefa út bækur, þar sem beitt er pólitískri hlutdrægni, og hann sannaði þetta með því að lesa kafla upp úr þeim bókum. Þetta er því veigamikið atriði, og ég fæ ekki skilið, hvernig hæstv. forseti getur látið sér koma til hugar, að þetta sé óviðkomandi því frv., sem hér liggur fyrir. Ég vænti, að við nánari athugun muni hæstv. forseti sannfærast um, að þetta er mjög þýðingarmikið atriði í sambandi að þetta mál.