09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (4393)

24. mál, fátækralög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Þegar rætt hefir verið um sveitfestistímann á undanfarandi þingum í sambandi við breytingar á fátækralögunum, þá hefi ég látið þá skoðun í ljós, að framfærslukostnaðurinn ætti eingöngu að hvíla á dvalarsveitinni. Þessi skoðun hefir hlotið sterka andstöðu margra hv. þm., en þeir hafa þó orðið að láta það undan síga, að sveitfestistíminn er nú kominn niður í tvö ár. Ef fara ætti einhverja millileið milli þeirra tveggja skoðana, sem uppi hafa verið um þetta efni, þá nær ekki nokkurri átt, að sú leið sé farin, sem frv. gerir ráð fyrirað dvalarsveitinni sé gert svo miklu léttara fyrir heldur en framfærslusveitinni. Ég er í þessu efni sammála hv. 2. landsk., álít, að sá hluti af framfærslukostnaðinum, sem framfærslusveitinni er ætlað að bera, meðan það skipulag helzt, að framfærsluskyldan hvílir ekki einungis á dvalarsveitinni, megi alls ekki vera stærri heldur en hinn hlutinn, sem lendir á dvalarsveitinni, og helzt ekki nema einn þriðji hluti. Ég held, að með því að láta kostnaðinn koma að næstu eða jafnvel öllu leyti á dvalarsveitina sjálfa væri hún knúin til þess að reyna að koma sem praktískustu fyrirkomulagi á framfærsluna. En ráðstafanir í þá átt myndu aftur gera henni kleift að standast kostnaðinn. Verði ekki þannig ýtt á þá aðila, sem með fátækraframfærsluna fara, að finna þær praktískustu leiðir, sem fáanlegar eru, þá er hætt við, að minna verði um það hugsað, þegar dvalarsveitin býst við að fá svo og svo mikið endurgreitt af kostnaðinum. Því hefir verið mótmælt hér á þingi, að slíkur hugsunarháttur væri til hjá bæjar- og sveitarstjórnum, en ég hygg, að reynslan myndi sýna það, ef svipað fyrirkomulag og frv. gerir ráð fyrir væri tekið upp, að framfærslukostnaðurinn ykist geipilega.

Þó til sé í gildandi lögum ákvæði um framlag úr ríkissjóði til jöfnunar á framfærsluþunga bæjar- og sveitarfélaga, þá er ekki þar með sagt, að framfærslukostnaðurinn geti ekki vaxið og orðið óhæfilega þungur á hverju einstöku framfærsluhéraði, þegar þessi breyting er komin á. Framfærslukostnaðurinn mundi aukast tiltölulega svipað á flestum framfærsluhéruðum og verða til þess að hækka meðaltalið, en úr ríkissjóði er aðeins veitt endurgreiðsla á því, sem fer fram yfir meðalframfærslukostnað. Því er ekki nein vissa fyrir því, að framlag ríkisins verði í samræmi við heildarkostnaðinn. Þetta væri auðvelt að sanna með rökum, ef fyrir lægju upplýsingar um framfærslukostnað allra framfærsluhéraða á landinu.

Ég taldi rétt að benda á þetta þegar við þessa umr. Sé það föst ákvörðun stjórnarflokkanna að halda fast við þau hlutföll, sem frv. gerir ráð fyrir við skiptingu framfærslukostnaðarins milli framfærslusveitar og dvalarsveitar, þá geri ekki ráð fyrir að geta léð því atkv.