09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (4431)

9. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að fara að svara fyrir Alþfl.mennina, en ég vil benda á, að ef það er ósamræmi í framkomu þeirra, þá er það ekki síður í framkomu hv. síðasta ræðumanns og hans flokks. Ég man ekki betur en að það hafi daglega verið prédikað í blöðum stjórarandstæðinga síðan Framsfl. og Alþfl. sömdu með sér um stjórnarmyndun, að Alþfl. ráði öllu og hafi fengið allt, en Framsfl. ekkert. Nú kveður heldur við annan tón hjá hv. 1. þm. Reykv. Nú heldur hann því fram hér, að Alþfl. hafi orðið að snúast í hverju máli til þess að geta komið til greina við þessa samninga. Ég vildi benda á þetta ósamræmi til þess að sýna, hvað lítið er að marka, hvað hv. stjórnarandstæðingar segja um þetta efni.

Hv. þm. sagði, að allt öðru máli væri að gegna hér heldur en í öðrum löndum, þar héldu ríkin uppi járnbrautum fyrir stórfé. En ég vil benda honum á, að við leggjum mikið fé til samgangna á sjó, og það getur talizt hliðstætt því, sem aðrar þjóðir leggja til járnbrautanna, svo það raskar ekki hlutfallinu um aðstöðu okkar lands samanborið við önnur. Þá talaði hann um, að það væru malbikaðir vegir um þessi lönd þver og endilöng. Það kann að vera um sum þeirra, en ekki sum. Til dæmis hafa vegirnir í Noregi og Svíþjóð marga sömu gallana og vegirnir hér, þó þeir séu e. t. v. eitthvað betri yfirleitt, enda er ekki farið fram á eins háan skatt hér eins og þar er.

Hv. þm. sagði, að vonda vöru yrði að selja lágu verði. En það er til annað sjónarmið, sem einnig verður að líta á við verðlagningu vöru, og það er, hvað kostar að láta hana í té. Frá því sjónarmiði mun hækkun á benzínskattinum hér ekki vera ósanngjörn, því það mun tiltölulega engu minni kostnaður vera við okkar vegakerfi, þó ófullkomið sé, heldur en vegakerfi þeirra þjóða, sem hafa miklu hærri benzínskatt.

Ég ætla svo ekki að eyða meiri tíma í umr. um þetta að sinni; ég býst við, að frv. fari til n., svo tækifæri gefist til að ræða það nánar síðar.