12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (4451)

54. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Bergur Jónsson:

Ég sé ekki ástæðu til að svara mörgu hv. 9. landsk., sem stundum er kallaður þm. Norður-Ísfirðinga, af því að hann flaut inn á þing vegna þess að Vilmundur Jónsson féll. Enda lítil ástæða til andsvara, því hann hrakti í engu skýringar mínar. Þó að hann vilji nú ekki kannast við, að úrskurður stjórnarráðsins sé rangur, þá er það sennilega af kurteisi við flokksbróður sinn, atvmrh., sem er fjarverandi, en á Patreksfirði sagði hann fullum stöfum, að úrskurðurinn væri rangur. Ég skal geta þess, að það var ég, sem gaf honum það litla lagavit, sem hann virðist hafa fengið, að ef vísað væri til 19. gr. l., fengist leyfi til að hafa varafulltrúa í hreppsnefndum, en ég álít, að slíkt mundi skapa ósamræmi, meðan hlutfallskosningar eru ekki almennt viðhafðar. Þá talaði hv. þm. um það, að menn mundu hafa beðið um hlutfallskosningar vegna þess að þeir hefðu búizt við, að með því móti fengist réttur til varafulltrúa. Ég veit, að til eru menn, sem hafa gert þetta, og það eru flokksmenn hv. þm. á Patreksfirði, sem munu hafa farið eftir lögfræðilegum upplýsingum hv. 9. landsk., eftir því sem ég veit bezt. Er það því honum sjálfum að kenna, að þeir hafa byggt gerðir sínar á röngum forsendum í þessu máli.