20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (4517)

59. mál, fiskiráð

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég þarf í rauninni ekki að svara því, sem hv. þm. G.-K. sagði um, hvers vegna ég komst á þing. Ísfirðingar vita manna bezt, af hverju þeir hafa kosið mig. Þeir spurðu ekki hv. þm. G.-K. ráða, og þeir mundu heldur ekki hafa spurt hann ráða, þó hann hefði verið nærstaddur. Aftur á móti hefir hv. sessunautur þessa þm. — þessi hv. þm., sem situr í skammakróknum, sem kallaður er, ekki af því að það sé skammarkrókur, heldur af því að þaðan koma skammirnar — gefið Ísfirðingum góð ráð, hann hefir leiðbeint þeim um að kjósa íhaldsmenn, eins og þeir hétu meðan þeir villtu ekki á sér heimildir, og síðan sjálfstæðismenn, en kjósendur á Ísafirði hafa aldrei farið að hans ráðum, og því oftar, sem hann hefir beðið þá og lengur, því minni áhrif hafa ráð hans haft. Ég er ekki að segja þetta þessum hv. þm., 6. þm. Reykv., til lasts, en hv. þdm. hafa ekki heldur trúað honum, af því hann hefir verið svo orðljótur í garð andstæðinga sinna, gert þeim upp illar hvatir og tilhneigingar og hefir því fengið skömm allra góðra manna. Hann hefir yfirleitt verið, eins og ég orðaði það um daginn, mylnusteinn um háls sinna flokksmanna, þar sem hann hefir dvalið. Ég þarf ekki að bera fram óskir um, að hann verði það á Sjálfstfl. hér í Rvík; ég veit, að svo verður. (GÞ: Komu þær óskir ekki um daginn? Mér heyrðist það).

Þá vildi hv. 6. þm. Reykv. segja, að við hefðum sagt ósatt í nál., að nm. virtust ekki vilja fylgja frv. óbreyttu, en mínu máli til sönnunar bendi ég á, að brtt. hafa komið frá öllum nm. nema þeim, sem vilja fella frv. Hv. þm. kallar sínar till. ekki brtt., af því það voru brtt., sem hv. þm. G.-K. gat fallizt á. Þetta minnir mann á söguna um manninn, sem ekki át kjöt, en át steik.

Ég hefi að mestu leyti varazt persónulegar deilur hér í d. og aldrei hafið þær að fyrra bragði. Hinsvegar hafa þeir hv. þm. í skammakróknum ætíð byrjað og ráðizt oft á mig. Ég get minnt á, að það hefir oft verið dæmt milli okkar hv. 6. þm. Reykv. Við höfum verið í kjöri í sama kjördæmi, og ég hefi alltaf borið hærri hlut. Ég er ekki að deila á þennan hv. þm. eða hælast um. Málstaður hans hefir alltaf verið verri og verr varinn, og þess vegna hefir hann borið lægri hlut. — Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta, en ef við hv. 6. þm. Reykv. eigum eftir að leggja mál okkar í dóm, þá er ég ekki hræddur við þann dóm.