04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (4698)

163. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Þeir eru að gera það sér til skemmtunar, þingbræður okkar, að halda aukafundi í hliðarsölunum. Þeir þykjast vera svo fróðir um þessi mál, að þeir þurfi ekki að hlusta á okkur hv. þm. Mýr. eða segja sitt álit á málinu, og bendir það á, að ekki hafi þeir mikið til brunns að bera eða viðhafi alvöru við afgreiðslu þessa máls. Taka þeir frv. sem leikaraskap hv. þm. Mýr., þó ég vilji ekki bera svo þungar sakir á hann eða hæstv. stjórn. En undarlegt þykir mér glott þm., ef alvara er bak við, og öll framkoma stjórnarliða bendir til þess, að það sé fyrirfram ákveðið að leika sér að þessu máli, án þess að koma fram þörfum umbótum á þessu mikla vandamáli landbúnaðarins. Sérstaklega vil ég taka fram, að hv. 2. þm. N.-M. tekur sér létt þetta alvörumál, og er það í fullu samræmi við alla framkomu hans. Ég hefi heyrt, að hann hafi staðið manna harðastur á móti því í n. að lækka vexti á lánum bændanna og hafi þar verið hjartanlega sammála sósíalistum, sem harðast hafa staðið á móti öllu því, sem getur komið bændunum á fjárhagslegan grundvöll. En þeirra markmið er að eyðileggja framleiðendur til lands og sjávar, eyðileggja alla framleiðslu í landinu, og þeim hlær hugur við að geta glapið framsóknarmönnum sýn; það hlær í þeim skálkurinn, ef þeir geta gert framsóknarþm. að böðlum yfir þeim mönnum, sem þeir eru umbjóðendur fyrir.

Hv. þm. Mýr. virtist viðurkenna það, að hér væri aðeins um loddaraleik að ræða, því hann fór að tala um það, að ef ekkert yrði nú gert, þá gætum við enn borið fram frv. á næsta þingi, ef við ættum sæti þar. Hann ætlast því til, að þetta mál flytji kerlingar milli þinga án þess að bændunum verði það að liði.

Það er eitt stórt atriði, sem frv. þetta er byggt á, að hægt verði að taka lán erlendis, en við göngum nú að því vísu, að sáralitlar líkur eru til, að það sé hægt, og ennþá minni að það fáist með svo góðum kjörum, að hægt sé að lækka vextina. (BÁ: Það hefi ég ekki sagt). Þá sér hv. þm., að ekki er um annað að gera en ganga inn á það, sem ég hefi sagt. Ég vil benda hv. þm. Mýr. á að snúa sér til hv. sessunautar míns, þm. V.-Ísf. Hann er manna kunnugastur því, hve auðvelt það er að fá stórlán erlendis til konverteringar á innlendum lánum. Hann er ekki bjartsýnn á þá möguleika. En það er allt á sömu bókina lært. Það er verið að tildra upp laglega orðuðu frv. til þess að sýnast, án þess að sýna nokkurn vilja til framkvæmda. Það eina, sem hægt er svo að tala um að gera, er að taka af tekjum lánstofnunarinnar, taka af stofnfénu, til þess að hægt sé að lækka vextina. Þetta er sú eina leið, þetta er viðreisnarstarfið, sem hv. þm. Mýr. hyggst að gera fyrir bændurna. Þetta er álíka viðreisnarstarf og þegar hv. 2. þm. N.-M. ætlaði að gefa kúnum rollurnar til þess að hækka afurðaverðið og bæta afurðasöluna.