11.10.1934
Efri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (4787)

42. mál, jarðræktarlög

Jónas Jónsson:

[óyfirl.]: Það er ekki undarlegt eftir veðurfarið í sumar, þó að hugir þingmanna og annara beinist að því að styðja aukna súrheysverkun í landinu. Frv. þetta fer að því leyti í rétta átt, að hér er um þýðingarmikið mál að ræða. Ég mun þó ekki á þessu stigi málsins fara mikið út í frv. sjálft, en ég vil nota tækifærið til að víkja að innganginum í ræðu hv. flm., sem kom þar að öðru máli og minntist á stefnubreytingu í landbúnaðarmálum hér í þinginu. Hann minntist á nefndarskipun til undirbúnings landbúnaðarmálunum, sem hann átti þátt í. Ég er ekki viss um, að hv. flm. hafi verið það ljóst, að þegar till. kom fram um skipun þessarar nefndar fyrir ári síðan, var því haldið fram af honum og flm. till. og samþ. af íhaldinu, að rannsókn í þessu máli skyldi hagað á þann hátt, að stj. framkvæmdi hana, en leitaði aðeins álits samvinnufélaganna án þess að vera bundin af till. þeirra. Þá kom ég ásamt núv. hv. 4. landsk. með till. um, að bæði samvinnufélögin og verkamannafélögin legðu til fulltrúa í nefndina. En hv. flm. beitti sér á móti því þá, að samvinnufélögin væru látin leysa málið og að verkamenn kæmu þar nálægt. Ég minnist á þetta af því, að hv. flm. kom inn á þessa nefndarskipun í ræðu sinni. Ég vil henda á, að þó að hann léti fella þessa till. mína þá, urðu þær straumbreytingar, að undir vorið fór hann eftir þessari till. Stj. gafst upp við að leysa málið, en félögum bænda og mönnum frá Alþfl. var falin rannsókn þess. Það var gott, að hv. flm. sá, að honum og vinum hans hafði yfirsézt, og það var þakkarvert, að þeir sáu að sér, þó að seint væri, þótt áhugi þeirra fyrir málinu væri eigi mikill. Þetta kemur nokkuð við landbúnaðarmálum á þessu þingi, af því að sú mikla hreyfing til að rétta hag bændanna kom eftir þessum línum.

Síðan 1917 hefir íhaldið þótzt ætla að koma lagi á mjólkursöluna í bænum, en aldrei var neitt gert. Það beið þar til eftir kosningarnar í vor, að tveir flokkar tóku höndum saman. Hv. flm. þykir leitt, að bændur skuli ekki leggja til alla fulltrúana í afurðasölunefndina, en því er til að svara, að honum sem ráðh. stóð opið að leysa þetta mál í sambandi við íhaldsflokkinn, sem þykist eiga svo sterk ítök í bændum. En hann gerði það ekki. Ég býst við, að hv. flm. hafi rekið sig á það eftir að hann kom í bandalag við flokk, sem hefir að meginstoðum spekúlanta og stórburgeisa, að hann gæti ekki komið þessu fram, og sú varð líka raunin á, að það varð að bíða þar til sá flokkur, sem hann átti þátt í að mynda, og bandalagsflokkur hans voru komnir í minni hl. í þinginu, en umbótaflokkarnir tóku við stjórninni. Ég hefði ekki minnzt á þetta núna, ef hv. flm. hefði ekki farið að tala um þessa nefnd, sem hann skipaði að lokum eftir tillögu minni, þó að hann léti fella hana á sínum tíma.

Út af þessu get ég sagt hv. flm. það, að allar líkur benda til, að nokkru meira en hann virðist ætla þurfi til þess að frv. hans komi að notum. Það vantar forystu Búnaðarfélags Íslands í þessu máli. Skal ég nefna dæmi til skýringar.

Í fyrra var einn af nánustu stuðningsmönnum hv. flm. staddur á fundi í Árnesýslu, þar sem rædd voru búnaðarmál. Kaupfélagsstjóri einn úr sýslunni kom á þennan fund og hélt þar kröftuga ræðu um nauðsyn súrheysverkunar og bauðst til að útvega efni í súrheysgryfjur, ef einhverjir vildu hefjast handa. Þessu var vel tekið, en það kom í ljós, að sú verklega búnaðarþekking í landinu var á því stigi, að sérfræðingum búnaðarfélagsins kom ekki saman um, hvernig byggju skyldi. Þetta góða boð kaupfélagsstjórans var því ekki notað nema að litlu leyti, vegna fáfræði sérfræðinganna, sem hér áttu að vera forystumenn bændanna, en voru ekki þeirri forystu vaxnir. Um safnþrærnar er nokkuð líkt að segja. Langt er síðan farið var að styrkja þær ríflega, en þó eru enn mjög skiptar skoðanir sérfræðinga um það, hvernig haganlegast sé að koma þeim fyrir, og ég hefi heyrt fullyrt, að aðferð sú, sem einkum er viðhöfð, sé tvímælalaust byggð á vanþekkingu þeirra manna, sem ráðið hafa hinu dýra fyrirkomulagi.

Það er vitanlega nauðsynjamál að stuðla að því, að bændur geti lifað sem mest á ræktuðu landi og varizt tjóni, sem af óþurrkum leiðir, en til þess þarf að gera miklu ýtarlegri og margþættari ráðstafanir en um er að ræða í þessu frv. Það má líka minna hv. flm. á, að framkvæmdir í þessu efni eru háðar því, hve mikið ríkissjóður getur látið af mörkum, en honum er kunnugt, að þrátt fyrir góða viðleitni fyrrv. stj. er fjárhagur ríkisins mjög slæmur, og í þessu sambandi má einnig minna hv. flm. á það, að fyrrv. stj. mun hafa lofað erlendum banka greiðslu á 400 þús. krónum upp úr nýári í vetur, sem ekki er hægt að greiða nema skera niður einhverjar fjárveitingar í fjárl. Þess má einnig minnast, að fyrrv. stj. varð að stöðva framlag til sjóðs, sem átti að hrinda í framkvæmd sléttun túnanna, þó að hv. flm. vilji nú fá framlög til umbóta, sem lágu niðri meðan hann var landbúnaðarráðherra. Ég efa eigi, að hv. flm. muni nú fylgja því fast eftir að afla skatta á réttlátasta hátt til þessara framkvæmda. Eins og hv. þm. veit, eru byggð árlega hér í Rvík mörg dýr hús. Það eru einstakir menn, sem byggja sér rándýrar „villur“, sem kosta tugi þúsunda, jafnvel upp í 100 þús. Í þessu liggur geysimikið fé, sem vissulega væri betur varið í súrheystóftir eða aðrar þarflegar umbætur í sveitum landsins. En þetta var bara ekki gert, og verður ekki gert nema þingið sé skipað þeim mönnum, sem þora að leggja á skattana og sjá um, að þeir séu teknir á réttum stað, þannig að efnastéttin og þeir, sem hafa breiðust bökin, beri þyngstar byrðarnar. Og það verður ekki séð, að neitt verulegt verði hægt að gera, nema lífsvenjubreyting eigi sér stað hjá þeim hluta þjóðarinnar, sem með óspilunarsemi hefir farið með efni sín og á þess vegna drjúgan þátt í því, hve illa er komið fjárhag ríkisins. Ég vil í þessu sambandi benda hv. þm. á, að honum hefði staðið nær á undanförnum árum að koma með till. í þá átt að hlynna að ræktunarmálum. En áhugi þessa hv. þm. lýsti sér nú bara þannig, að hann stöðvaði framlag til verkfærakaupasjóðsins meðan hann fór með landbúnaðarmálin í stj.

Ennfremur mætti benda hv. þm. á það, að í þessum málum sem öðrum dugir enginn leikaraskapur, og því verður, samhliða hverju frv., sem gerir ráð fyrir auknum útgjöldum, hversu nytsamt sem það kann að vera, að benda á einhverja færa leið til tekjuöflunar, því fjárhag ríkisins er nú svo varið, að það er fullkomin ástæða til, að þm. finni til ábyrgðar á þeim gerðum sínum, er kunna að valda nýjum útgjöldum. Það getur t. d. vel verið, að við verðum að skera niður fjárframlag til nytsamlegra framkvæma, sem enginn þm. vildi sleppa niður, til þess að borga með 400 þús. kr. víxilinn, sem tekinn var af fyrrv. stjórn til að standa straum af daglegum útgjöldum ríkisins. Ég vona, að hv. þm. taki það ekki illa upp, þó bent sé á þessa staðreynd, að samhliða auknum útgjöldum verður að sjá fyrir auknum tekjum. Ég veit, að hann er það glöggur á fjármál, að honum er það ljóst, að til þess að geta eytt miklu þarf líka einhvers að afla. Svo vildi ég að lokum mega vænta þess, að hv. þm. verði hjálplegur síðar meir, þegar að því kemur að færa byrðarnar sem mest yfir á breiðu bökin.