26.10.1934
Efri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (4860)

98. mál, fávitahæli

4860Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vildi beina því til þeirrar hv. n., sem væntanlega fær þetta mál til athugunar, að gefa landlækni kost á að ræða málið við n. Mér er kunnugt, að hann hefir aflað sér fróðleiks um reynslu annara þjóða í þessu máli, og væri gott fyrir hv. n. að hafa samband við hann. Það dettur engum í hug að neita því, að mikil þörf sé fyrir hendi í þeim efnum, sem frv. fjallar um. Ég lít svo á, að okkur vanti heildarlöggjöf um forsjá allra sjúkra manna, umkomulausra barna og annara, sem almenn tryggingarlög ná ekki til. Ég vona, að fyrir næsta þing verði hægt að semja frv. til heildarlöggjafar í tryggingarmálum, bæði fyrir heilbrigða og sjúka, en ég sé ekkert á móti því að samþ. þetta frv. fyrir því. Ef úr því verður, að víðtækari lög verði undirbúin fyrir næsta þing, þá getur þetta frv. fallið inn í þau lög sem einn þáttur. En að lokum vil ég endurtaka það, að benda hv. n. á að leita samvinnu við landlækni um athugun á þessu frv.