08.11.1934
Efri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (4880)

140. mál, hússtjórnar- og vinnuskóli fyrir konur í Reykjavík

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Á fyrstu síðu þessa frv. er yfirlit yfir þau störf, sem heimtuð eru af húsmæðrum landsins, þar sem tekið er fram allt það, sem húsmæður þurfa að leysa af hendi í starfi sínu á heimilunum. Það er ekkert smáræði, eins og allir sjá, og þar af leiðandi er það ekki svo lítið, sem þær þurfa að geta og kunna til þess að leysa þetta allt vel af hendi. Nú er það svo, að húsmæðrafræðsla hefir aukizt mikið í landinu síðustu áratugi; er nú farið að leggja mikla áherzlu á það, sem áður þekktist ekki, að kenna konum að þekkja efnasamsetningu þess, sem í matinn er haft, frá vísindalegu sjónarmiði, svo fólkið viti, hvað það leggur sér til munns. Ennfremur er þeim kennt margt annað, sem vaxandi kröfur menningarinnar krefjast. Konur verða líka skilyrðislaust að fá slíka þekkingu. Þetta hefir verið viðurkennt með því að starfrækja skóla, þar sem slík fræðsla er á boðstólum. Hv. þdm. er kunnugt um, hvar slíkir skólar hafa verið starfræktir og hvar þeir hafa ekki verið starfræktir, og þeim er líka kunnugt um það, að í Reykjavík, þar sem fólkið er flest og unga fólkið leitar sér menntunar, er enginn starfandi húsmæðraskóli sem stendur. Að vísu fer hér fram töluverð kennsla í þessum efnum. Ber þar fyrst og fremst að telja hússtjórnardeild Kvennaskólans; sú kennsl. er þó í mjög smáum stíl, samanborið við þann mannfjölda, sem hér er, þar sem deildin tekur aðeins 12 stúlkur, og svo er þetta þar að auki heimavistarskóli, og þess vegna ekki eins heppilegur bæjarstúlkum. Þá hefir bærinn líka styrkt námskeið, sem frk. Kristín Thoroddsen hefir haldið undanfarna vetur. Að síðustu ber svo að telja þá fræðslu, sem barnaskólarnir veita í þessum efnum, en í efstu bekkjum þeirra er stúlkubörnum kennd matreiðsla og ýmislegt, sem að henni lýtur. Þetta er nú allt gott og gagnlegt, en þetta er samt ekki viðunanlegt fyrir höfuðstað landsins, heldur verður hann að eignast myndarlegan húsmæðraskóla, og eins og það er orðað hér, húsmæðraskóla og vinnuskóla. Menn sjá, að bak við þetta frv. stendur allsterkur vilji kvenþjóðarinnar yfir höfuð að tala, þar sem margar mætar konur hafa komið saman á fund til þess að ræða þetta mál og hafa ritað það, sem hér má lesa á fskj. Ennfremur get ég upplýst það, að á Bandalagsfundi kvenna, þar sem fulltrúar voru mættir frá 7 kvenfélögum hér í Rvík, var einróma samþ. að skora á Alþ. samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir.

Það er engum blöðum um það að fletta, að það er einróma vilji okkar kvenna, að slíkur skóli sem þessi verði settur á stofn hér, og þegar litið er til þess, að aðrir landshlutar hafa sumir jafnvel 2 slíka skóla, en Suðurlandsundirlendi ásamt Rvík engan, þá virðist það ekki vera ofmælt, þó að sagt sé, að tímabært sé að leysa úr þessu á þann hátt, að hér verði stofnaður og starfræktur myndarlegur hússtjórnar- og vinnuskóli. Menn munu kannske spyrja, hvað sé meint með vinnuskóla. Það, sem vakti fyrir þeim, sem að frv. standa, var það, að ungum stúlkum yrði gefinn kostur á að læra og æfa alla þá vinnu og öll þau störf, sem heimilin þurfa með, og að þeim yrði kennt að vinna þau á hagkvæman hátt. Það er sorglegur sannleikur, að mörg konan og stúlkan gengur afarilla undirbúin að sínum störfum, hvort heldur hún tekur við stjórn heimilis eða á að starfa á heimilinu undir annara stjórn, og það er satt að segja eðlilegt, eftir því fyrirkomulagi, sem við höfum átt við að búa að mörgu leyti, að svo sé. Til þess að ráða bót á þessu og fá sem fullkomnasta krafta á þessu sviði, þar sem heimili landsins eru annarsvegar, þá hefir þetta frv. orðið til og verið borið hér fram.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira að sinni, en vil mælast til, að frv. verði vísað til hv. menntmn. að lokinni umr.