20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (4957)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Guðbrandur Ísberg:

Tveir hv. þm. hafa borið mér það á brýn, að ég hafi ekki lesið nál. það, sem fylgir þessu frv. Þetta er mesti misskilningur. Ég hefi einmitt lesið það vel og vandlega, og undraðist sumt af því, sem þar stendur. Þar stendur t. d. skýrt í byrjun nál., að n. hafi athugað málið og sé sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. Mig furðar á hinum skriflega fyrirvara hv. form. n., þm. Ísaf., sérstaklega þegar tekið er tillit til þeirrar afstöðu, sem hann hafði áður tekið til annars jafnmikilsverðs atriðis og hér um ræðir. Þetta er aðalumr. málsins, og hv. þm. Ísaf. hefir ekki enn borið fram neina brtt., og mér er ekki kunnugt um, að von sé á brtt. frá honum, enda er hann nú genginn út úr deildinni. Hv. þm. lét orð falla í þá átt, að ég væri mótfallinn því, að fellt yrði niður í 10. gr. frv. það ákvæði, sem snertir hækkun vörugjalds, að fellt sé niður það ákvæði, að það megi leggja það á nauðsynjavörur. Það er ekki rétt, að þetta beri á milli, heldur hitt, að samkv. mínu frv., því sem ég hefi borið fram hér í hv. d. f. h. bæjarstj. Akureyrar um bæjargjöld þar, var Akureyrarkaupstað gefin heimild til þess að leggja aukin gjöld á sína eigin borgara. En Siglfirðingar vilja fá leyfi til þess að reyta gjöldin af öðrum, og þá fyrst og fremst af síldarverksmiðjum ríkisins og síldarútgerðarmönnum, er gera út frá Siglufirði, þar á meðal mörgum Akureyringum.