22.12.1934
Neðri deild: 67. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (5008)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Pétur Ottesen:

Mér hefir skilizt á hæstv. forseta, að mál þetta mundi vera úr sögunni og ekki eyðandi tíma í það, sakir hinna mjög sundurleitu skoðana manna á málinu í öllum flokkum. Fyrir liggur fjöldi till., og þar sem komið er alveg fast að þingslitum, er vitanlega tilgangslaust og ástæðulaust að taka málið fyrir. Enda vildi hæstv. forseti taka málið út af dagskrá, sem er mjög í samræmi við það, sem hann sagði mér og öðrum fyrir fundinn.

Út af því, sem fram hefir komið nú, vil ég taka það fram, að þessi færsla þingtímans, eins og gert er ráð fyrir í frv., er ákaflega óþægileg fyrir bændur. Ég tala ekki um þá till., sem kom frá hv. þm. V.-Ísf., því að verði hún ofan á, er það hreint og beint sama sem að byggja bændum algerlega út úr þinginu og færa þingvaldið gersamlega í hendur kaupstaðanna. Ég veit ekki, hvort hv. þm. meinar þetta með sinni till. Ég ætla, að hann skorti heldur skilning á því, hversu ákaflegu erfið og ómöguleg bændum er brottvist frá heimilum sínum um háannatímann.

Ég held, að eins og málum er komið, sé bezt að láta sitja við það, sem er, að þing komi saman á lögmæltum tíma, og sé ekki verið að grauta meir í þessu máli. Það er sýnilegt, að það fæst ekki samkomulag. Og þó að tækist með hörku að knýja málið fram á síðustu stundu, þegar ekki er tækifæri til að viðhafa neina eðlilega meðferð málsins, þá myndu úrslitin áreiðanlega verða á móti vilja mikils meiri hl. Alþingis.