22.12.1934
Neðri deild: 67. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (5011)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég ætla aðeins að benda hv. þm. Borgf. á það, að það er með störf í nefndum eins og þegar menn verða samferða, að fimm menn eru ekki fimm sinnum fljótari en einn maður. Fimm menn vinna ekki fimm sinnum fljótar að tekjuskattsmálum en einn maður eða heldur en stjórnin. Menn þurfa rétt sinn tíma til að koma málunum áfram, þó að fleiri séu, og kannske lengri tíma.

Ég veit, að það er mannfæð í sveitunum hjá því, sem áður var. En ég hefi lagt til í minni till., að þeim, sem búa utan Rvíkur, sé goldið hærra kaup. Og ég hygg, að yfir vortímann sé kannske kostur á að fá mann fyrir allt að 16 kr. á dag. Og flestir bændur segja mér, að þessi tími sé ekki óheppilegri en október, sem kannske er allra óheppilegastur tími fyrir bændur landsins.