02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal, út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, játa að ég gekk inn á hans röksemdir í ræðu minni, af því að þær eru allar á móti frv. Þess vegna var ég hjartanlega sammála því, sem hann sagði. Ég ætla ekkert að vera að tyggja þetta upp aftur. En það er augljóst, að hans röksemdir sönnuðu, að frv. er óþarft, af því að þær vörur, sagði hann, sem með frv. á að einoka undir áfengisverzlunina, getur enginn búið til, svo vel sé, nema áfengisverzlunin. Eftir því hljóta allir aðrir framleiðendur vörunnar að hafa svo óhagstæða aðstöðu, að þeir geti ekki keppt um framleiðsluna.

Ég kalla gagnslausu fræðimennsku allt tal og skrif um eitur í umræddum vörum, því að ef landlæknir hefði álitið þetta mjög umtalaða eitur skaðlegt eða hættulegt, þá hefði hann fyrirbyggt notkun þess. En með því að leyfa notkun þessara vara svo mánuðum skiptir enn, þ hefir hann óbeinlínis fellt sinn dóm í málinu þannig, að allt þetta eiturhjal sé tóm vitleysa. Annars hefði hann ekki leyft neyzlu þessara vara stundinni lengur.

Fróðir menn segja, að vinna megi gull úr sjó. En hvers vegna rjúka menn ekki til og vinna gullið úr sjónum, fyrst það er þar til. Það er auðvitað af því, að það er þar svo hverfandi lítið, að menn hafa aðeins fundið það með nákvæmustu efnarannsóknum. Sama hlýtur að gilda um eitrið í bökunardropunum, og er framkoma landlæknis næg sönnun þess.

Viðkomandi „fróðu mönnunum“ mínum ætla ég bara að segja það, að það mætti líka lesa nöfn þeirra og skrif af blöðum eins og nafn og skrif Jóns Vestdals er hér af sumum hv. þm. í hávegum haft. Þessir fróðu menn hafa haft prýðileg skilyrði til að rannsaka og dæma um það, sem ég í ræðu minni gat um.

Hæstv. ráðh. virðist bera frv. fram af umhyggju fyrir þeim mönnum, sem ekki vita um gæði vara þessara, vegna þess að þeir hafi ekki aðstöðu til þess. Nú er það vitanlegt, að um allan heim er fullt af 2., 3. og 4. flokks vörum. Það er ekkert athugavert við það að framleiða slíkar vörur, ef skýrt er rétt frá því, hvenær varan er 2., 3. eða 4. flokks vara, og margir kaupa þessar vörur, af þeirri ástæðu að þær eru ódýrari.

Það er augljóst, að efnagerðir utan áfengisverzlunarinnar geta ekki framleitt 1. flokks vörur nema þær hafi þau efni, sem til þess þarf. En að dæma vöru falsaða þó hún sé ekki 1. flokks vara, nær auðvitað engri átt. 3. flokks fiskur er t., d. ekki falsaður, ef kaupandi veit, að hverju hann gengur.

Hv. 4. landsk. kom fram fyrir hönd stj., eins og hann er vanur. Í Englandi er það sérstakur maður, sem er málsvari stjórnarinnar. Það lítur út fyrir, að stj. hafi tekið upp þessa venju. Hv. 4. landsk. má ekki heyra það, að stjfrv. séu illa undirbúin. Hann segir, að það stafi af því, að stj. hafi svo mikið að gera, að hún megi ekki vera að því að undirbúa frv. vel. En stj. hefir auðvitað nóg tækifæri til þess að undirbúa frv. betur. Hún þarf ekki annað en fá sér aðstoðarmenn til þess að gera það, sem hún hefir ekki sjálf tíma til þess að gera. Hún getur t. d. látið hagstofuna hjálpa sér. Það dugir ekki að tefja þingið á meðan verið er að ná í upplýsingar um hvað eina. En annars hefir hæstv. stj. ekki verið að afsaka sig, heldur hefir hv. 4. landsk. verið að afsaka hana.

Hv. þm. sagði, að ég hefði verið tómlátur í iðnaðarmálum undanfarið. Það getur auðvitað verið, að ég hafi verið of tómlátur í þeim, en þó er það svo, að iðnaðarmenn hafa oft komið til mín og beðið mig að flytja sín mál hér fram á þingi. Og ef mér hafa líkað þau, hefi ég borið þau fram. Það er kannske minna en það hefði átt að vera. En ég hefi aldrei leitað til iðnaðarmanna í þeirri trú, að æ sér gjöf til gjalda. Það er auðvitað gott, ef einhver leitar þá uppi. Ég er glaður yfir því, ef þeirra mál fá framgang hér á þingi. Ég hefi viljað vera einlægur við þessa stétt. Ég hefi viljað, að það kæmi upp sjálfstæð iðnaðarmannastétt í landinu.

Hv. þm. sagði, að ég vissi lítið, hvað væri iðnaður. En hann sýndi sína þekkingu á þann hátt, að hann þekkir engan iðnað nema í sambandi við apótek. Hann þrástagaðist á því, að það væri alveg eins gott, að ríkið hefði þetta eins og apótekin. Eru það apótekin, sem bræða síld, smíða húsgögn eða brugga öl og gosdrykki? Ég held nú, að þessi hv. þm., með þessari þekkingu sinni, sé ekki fær um að taka aðra í skóla hvað iðnað snertir.

Hv. þm. gaf yfirlýsingu, sem mér þótti vænt um að heyra. Hann skýrgreindi, hvað iðnaður væri, og sagði, að það væri það, sem innlendir menn ynnu að. En svo hélt hann áfram og sagði, að innlendur iðnaður væri heppilegri í höndum ríkisins heldur en einstakra mann. Hann sagði, að það væri heppilegt, að ríkið ræki þetta, því að allir aðrir hefðu falsaðar vörur. Flestar iðnaðarvörur eru nú þannig, að kaupandi getur ekki vitað, hvernig varan er. Með öllum slíkum iðnaði þarf að vera nákvæmt eftirlit og mat. Það þarf að gæta þess vandlega, að vörurnar séu ekki blandaðar eiturefnum. Það á að líma miða á vörurnar, sem segja til, hvort það er 1. fl., 2. fl. eða 3. fl. vara, og láta svo kaupandann um það, hvað hann vill kaupa. En þetta fer forgörðum. þegar ríkið tekur vörurnar í sínar hendur. Þar sem menn gátu áður valið, hvaða vöru þeir vildu kaupa, þá verða menn nú að taka við því, sem ríkið býður þeim. Það er líkt og með svarta neftóbakið, sem átti að venju menn á að nota, þar sem ekki mátti selja annað tóbak. Hv. þm. gat um úrsmiðina og sagði, að þeir gætu falsað vörur sínar. Hann sagði frá úrsmið, sem hefði einungis blásið í úrið og tekið 5 kr. fyrir. Vill hv. þm., að ríkið taki að sér úrviðgerðir. Heldur hann, að það sé ómögulegt að tryggja ófalsaðar úrviðgerðir nema ríkið blási í úrið? Það er auðvitað mál, að það er stefna hv. 4. landsk., að ríkið seilist eftir allri verzlun og öllum iðnaði.