17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

23. mál, tilbúinn áburður

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Út af ummælum, sem hér hafa komið fram, aðallega frá hv. þm. V.-Húnv., þykir mér rétt að upplýsa nokkur atriði.

Hann lagði megináherzluna á það, að með þessum 1. eigi að skerða tillagið til áburðareinkasölunnar frá því, sem verið hefir. Þegar menn athuga þetta mál, verður greinilega að gera mun á því, hvað ákveðið er í l. og svo hinu, hvernig þau l. hafa verið framkvæmd. Það er rétt, að nú er svo ákveðið í l., að ríkið skuli greiða kostnaðinn við að flytja áburðinn til landsins, ennfremur kostnað vegna flutnings milli hafna, í þriðja lagi kostnað vegna landflutninga, þar sem vegalengd er yfir 35 km., og í fjórða lagi kostnað vegna verzlunarumsetningar. Þetta er nú allt heimilað í l. En við þetta er bara sú stóra aths., sem verður að taka hér með, að l. hafa ekki verið framkvæmd. Skal ég í því sambandi benda á það, að 1933 var styrkurinn til áburðareinkasölunnar ekki 43 þús. kr., eins og hér hefir verið tekið fram, heldur 42 þús., eða m. ö. o. tæplega flutningskostnaður til landsins. Hefði nú átt að fylgja l. eins og þessi hv. þm. vill, þá hefði kostnaðurinn árið 1933 verið 101 þús. kr. Umsetningin var 400 þús., og ef hann reiknar þar af 3%, þá hefði framlag ríkisins samkv. till. hv. þm. átt að vera 90 þús. kr., m. ö. o. 48 þús. kr. meira en landbrh. sá, er þá var við völd, lagði fram. Á þessu verður því að gera glöggan greinarmun. Það er ekki bændum að neinu gagni að ákveða í l., að þeir fái þennan eða hinn styrk, sem þeim er svo aldrei greiddur. Og það, sem hér er verið að fara fram á, er aðeins það, að lögfesta þær reglur, sem fylgt hefir verið í framkvæmdinni. Það er því blekking ein, að verið sé að rýra það framlag, sem veitt hefir verið að undanförnu.

Í þessu sambandi vil ég benda á það, að öll árin hefir álagningin farið langt fram úr 3%. Árið 1933 var framlag ríkissjóðs 42 þús., en kostnaður 101 þús., eins og áður er sagt. Álagningin hefir því verið 59 þús. kr. Þannig hafa 1. verið framkvæmd.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, að hér er ekki verið að gera annað en að lögleiða það, að þetta skuli vera framkvæmt eins og gert hefir verið að undanförnu, sérstaklega árið 1933. Vænti ég, að hv. þm. V.-Húnv. geti ekki fundið að því, þó að núv. stj. leggi til, að l. skuli framkvæmd eins og sá ráðh. gerði, sem siðast var við völd.