17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

23. mál, tilbúinn áburður

Sigurður Kristjánsson:

Ég skal lýsa því yfir, að ég hefði haft talsverða tilhneigingu til að vilja takmarka þessa upphæð, þó að við flm. þessarar brtt. höfum ekki séð okkur það fært. Það er mikils virði að vita fyrirfram, hve hár hver útgjaldaliður í fjárl. muni verða. Við flm. þessarar till. viljum líka ganga dálítið í þessa átt, þar sem við leggjum til, að ekki verði miðað við flutningsgjald, heldur við tonnatölu.

Ég get ekki skilið það, hvers vegna menn vilja nú fara að fella niður l., sem miða til þess, að mönnum verði sem hægast að nota áburðinn þannig, að þeim verði mest hjálpað, sem erfiðasta eiga aðstöðuna. Það verður ekki annað álitið en að þegar verið er að styrkja mann í einhverju, þá séu þeir helzt styrktir, sem þess þurfa mest við, og þegar um flutningsgjöld er að ræða, þá þarf auðvitað helzt að hjálpa þeim, sem erfiðastar hafa samgöngur.

Eins og menn vita, þá er ríkinu heimilt samkv. l. 1931 að greiða allan flutningskostnað frá útlöndum og á hafnir og ennfremur kostnað við landflutninga, þar sem vegalengd er yfir 35 km. Ég sé nú enga ástæðu til að tala hér um flutninga á landi, því að það getur vel verið, að flutningur frá höfn fari fram á sjó og getur orðið miklu dýrari en landflutningur, enda er líklega átt við flutninga frá höfnum, sem skip Eimskipafélagsins og skip ríkisins koma á.

Ég hefi ekki ennþá komizt að raun um, hvers vegna á að fella þetta ákvæði niður, af því að mér sýnist ákvæðið nauðsynlegt, og það miðar alveg sérstaklega til þess að gera aðstöðu manna sem jafnasta til að ná í þessa vöru.

Ég held, að ég neyðist til að svara hv. þm. Mýr. nokkrum orðum. Hann kom hér fram eins og einhver landbúnaðarsérfræðingur nú fyrir nokkrum dögum. Nú er hann að spila sig sem verzlunarsérfræðing, með talsverðu yfirlæti í bæði skiptin, en það mikla yfirlæti er ekki í fullkomnu samræmi við ávextina af hans máli. Hann byrjaði á því að segja, að þessi brtt. okkar hv. 11. landsk. gengi öfugt við þá þróun, sem orðið hefði í verzlunarmálum á síðari árum. Ég vil ráðleggja þessum sérfræðingi í landbúnaðar- og verzlunarmálum að setja sig betur inn í það, hvað orðið „þróun“ þýðir. Ég veit ekki betur en að það, sem hann kallar þróun, sé það, að verzlunin hefir færzt í það horf, sem allir menn telja óviðunandi. Ég vil miklu fremur kalla það böl og örðugleika fyrir verzlunina, en þróun kallar það enginn nema þessi hv. þm.

Þessu máli sínu til stuðnings vitnaði hv. þm. í fisksöluna og síldareinkasöluna. Já, það var ekki lítil þróun, sem átti sér stað með síldareinkasöluna! Við vorum nú fyrir stuttu síðan minntir á það, þegar þessi verðmæta vara varð einskis virði fyrir þessa „þróun“. Þeir, sem veiddu síldina, fengu engan eyri. Þeir, sem voru svo ólánssamir að eiga síldveiðiskipin, stórtöpuðu, og síðast olli þessi „þróun“ ríkissjóði milljónatapa, en þó var það tjón lítið hjá því, sem þeir urðu fyrir, sem síldina veiddu.

Þá verð ég líka að taka það fram, sem ég hélt að allir vissu, að það gegnir öðru máli um verzlun með framleiðsluvöru, sem út er flutt, eða þegar verið er að leggja höft á innflutta vöru. Þá getur einkasala verið heppileg til að draga úr verzluninni, því að það hefir alltaf sýnt sig, að í einkasölu hefir varan alltaf orðið dýrari og oft óvandaðri líka.

Það er undarlegt, að hv. þm. skuli vera að fræða okkur á því, að stj. hafi komizt í samband við verzlunarhring og njóti þar sérstakra vildarkjara. Ég skil ekki, að sá hringur sé yfir höfuð lokaður fyrir neinum, sem vill hafa við hann stór viðskipti. Ég sé engin rök í þessu. Ég hygg, að hver sá, er vill verzla við þennan hring í stórum stíl, muni geta það alveg eins og þessi einkasala.

Viðvíkjandi því, hvað þessi „þróun“ sé hagstæð, vil ég benda á olíuverzlunina, þegar við urðum að kaupa þessa vöru í heildsölu hærra verði en menn gátu fengið 2-3 föt fyrir, ef þeir hefðu fengið að hafa verzlunina frjálsa. Þá mátti fá olíuna 15-18 kr. lægra en hún kostaði hjá þessu einokunarfyrirtæki.

Við höfum líka fengið smjörþefinn af þessari „þróun“ í tóbaksverzluninni, hvernig verðið varð hærra en í frjálsri verzlun. Er það af því, að þessi „þróun“ veiti ríkinu hagstæðari innkaup, eða er það kannske af því, að verzlunin kostar ríkið nokkuð mikið? Svo mikið er víst, að hvenær sem þessi verzlun hefir verið gefin frjáls, þá hefir varan orðið ódýrari og ríkið þó fengið meiri tekjur heldur en þegar varan hefir verið einokuð.

Og svo að við snúum okkur nú að áburðinum, þá kemur hann ekki fyrirhafnarlaust og álagningarlaust upp í hendurnar á bændum, því að hæstv. fjmrh. upplýsti, að álagningin hefði verið 18%, og verður það að teljast mikið á slíka nauðsynjavöru.

Þá kom hann að því, að flutningsgjöld yrðu hærri, ef ekki væri einkasala. Ég sé nú enga ástæðu til að halda, að skip Eimskipafél. mundu taka meira fyrir að flytja áburðinn fyrir einstaklinga. Þessi vara yrði alltaf flutt inn í stórum stíl og hleðst mjög vel, og því skil ég ekki annað en að flutningsgjöldin yrðu alltaf þau lægstu, sem mögulegt væri, án nokkurs tillits til þess, hver flytti vöruna inn. - Ég skal engu spá um það, hvernig d. snýst við þessari till. okkar hv. 11. landsk., en það er víst, að það er ekki hægt að fella hana fyrir þær röksemdir, að það sé þróun í verzlun að einoka nauðsynjavörur. Reynslan hefir sýnt það, og það er viðurkennt af öllum, sem vilja segja sannleikann, að frjáls verzlun veitir mönnum ódýrustu og beztu vöruna. En þegar einokun hefir komið, hafa vörurnar orðið dýrari og óvandaðri. Þetta geta þeir, sem vilja, kallað þróun, en ég kalla það spillingu og böl.