19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

27. mál, sláturfjárafurðir

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég á hér eina brtt. á þskj. 97. Hún er í þá átt, að frv. verði breytt í sama horf og það var í, þegar afurðasölunefnd skilaði því til stj.

Allir bændur í afurðasölunefndinni voru á einu máli um það, að sjálfsagt væri, að Búnaðarfélag Íslands skipaði einn fulltrúa í nefndina, enda höfðu þeir þar afstöðu þessarar deildar 1933 að baki sér. Þá var hér gert ráð fyrir Búnaðarfélagi Íslands sem sjálfsögðum aðila.

Í Noregi, sem var á undan oss um skipulagningu afurðasölu bænda, eiga 8 fulltrúar sæti, og enginn þeirra er fulltrúi neytenda. Bændur þar hafa auðsjáanlega lítið svo á, að þeir þyrftu ekki forsjár kaupenda til þess að verðleggja vöru sína. Og ég veit ekki til, að fram hafi komið neinar raddir þar í landi, sem bendi til annars en að neytendurnir láti sér þetta vel líka. Enda er það svo sjálfsagt, að eigi þarf um það að ræða, að þeir, sem hafa vöru að selja, ráði verðlagi hennar. Þeir munu ávallt gæta þess að spenna bogann ekki svo hátt, að markaður minnki, og munu sjálfra sín vegna ávallt gæta hinnar hæfilegu markalínu.

Ég skal að vísu játa, að ég tel hæstv. forsrh. hafa tekizt vel um val oddamanns í n. En þó sýna nýútkomin Hagtíðindi, að hagsmuna bænda hefir ekki verið gætt nógu vel, þar sem verðvísitalan ber það með sér, að verð sláturafurða hefir reynzt lægra í smásölu í september í haust en í sama mánuði í fyrra. Ég held, að þetta bendi til þess, að nauðsyn sé á að tryggja fulltrúum bænda meiri og betri aðstöðu en þeir hafa nú. Hingað til hefir það verið skoðun íslenzkra bænda, að þeim væri betra að hlíta eigin forsjá en fela neytendum að verðleggja afurðir þeirra. Og ég vænti þess, að hv. deild líti eins á þetta mál.