19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Þetta fer nú að verða endurtekningasamt. Hv. þm. N.-Ísf. er byrjaður á því að nota hér einkennileg rök. Fyrst er það, að ég upplýsti tvisvar eða þrisvar, að vöruskipti hefðu verið leyfð af n. um allt land, þar sem beðið hefði verið um það. Svo flytur hv. þm. hér langa ræðu um það, að vöruskipti hafi ekki verið leyfð. Og hann endar ræðu sína með því að segja að ég hafi gefið þær upplýsingar, að þau hafi verið leyfð, en sér hafi ekki verið kunnugt um það. Hvernig get ég að því gert, þó að hann viti ekki, að þessi vöruskipti voru leyfð. (JAJ: Ég má til að fá að svara þessari firru). Ég hefi leitað upplýsinga hjá n. um þetta, og þetta er staðreynd, sem ekki er hægt að mótmæla, þó að hv. þm. N.-Ísf. hafi ekki um það vitað. Og að ýmsir bændur þar í héraði hafa ekki vitað um það í haust við framkvæmd l., eru aðeins ágallar við fyrstu framkvæmd 1., sem verður vitanlega breytt, þegar farið verður að framkvæma þau til lengdar. Hinsvegar er óþarft að dæma þessi lagaákvæði fyrir það, þótt svona eigi sér stað við fyrstu framkvæmd.

Hv. þm. minntist á það, að ég hefði minnzt sérstaklega á höfunda l. þessara og sagt, að þeir og n. hefðu ekki séð ástæðu til að koma fram með óskir um breyt., eftir að þeir hafa fengið þá reynslu, sem fengin er. Ég verð nú að segja það, án þess þó að hnýta að hv. þm. N.-Ísf., að ég vil álíta, að þeir menn, sem sömdu l., og eins þeir, sem eru í n. nú, hafi miklu meiri kunnugleika á þessum málum heldur en þessi hv. þm. og við báðir. Þessir menn eru fyrst og fremst búnir að finna það, hvar skórinn kreppir að við framkvæmd 1.

Ég hefi ekki sagt, að ekki mætti koma fram með aths. við þessi 1. En það, sem mest er um deilt, er það, hvort þær breyt., sem um er að ræða og eru smáatriði, skemma ekki meira heildarfyrirkomulagið en bæta, þó að þær bæti fyrir sárfáum einstaklingum, sem sérstaklega stendur á fyrir. Ég hefi bent á, að bæta má úr fyrir þessum fáu mönnum með því að setja undanþáguheimild í l.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að það hefði verið beðið um undanþágur, en þær hefðu ekki verið leyfðar. Mér hefir nú einmitt verið sagt af þeim manni, sem bezt má um þetta vita, að það hafi verið beðið um undanþágur og þær hafi verið leyfðar, nema þar, sem álitið var, að þeirra væri ekki þörf. Um það má auðvitað deila, hvort mistök hafi orðið um framkvæmd þessa atriðis. Það er auðvitað ástæðulaust að veita undanþágur, ef auðvelt er að koma fénu í sláturhús.

Þá spurði hv. 1. m. Skagf., hvort ekki væri leyfilegt að selja reykt kjöt. Það getur leikið vafi á því, hvort ekki beri að skýra 1. þannig, að það sé leyfilegt. Þó að þetta sé ekki tekið fram í l., þá hefir komizt á sú venja, að undanþágur eru leyfðar í l. svipuðum þessum. Ég álít sjálfsagt í 1. eins og þessum, að þó að það sé ekki sérstaklega tekið fram í 1., að selja megi reykt kjöt, þá eigi að veita slíka undanþágu.

Hv. 1. þm. Skagf. segir, að engin hætta sé á því, þó leyfð verði sala á kjöti milliliðalaust, að það verði selt undir verði. En ég er þvert á móti þeirrar skoðunar, að það sé mikil hætta á því. Hættan liggur í því, að mönnum verður of annt um að koma kjöti á innlenda markaðinn, af því að hann er betri. Þegar komið er of mikið kjöt á markaðinn, þá verða menn neyddir til þess að selja það undir verði. Hvað snertir reykta kjötið, þá er ég fús á, að það sé tekið til athugunar við afgreiðslu frv. En ég er ósammála því, að undanþága sé leyfð með nýtt kjöt. Það mundi lækka verðið vegna aukins framboðs. Ég vil vekja athygli á því, að það, sem um er deilt, er þetta, hvort það, sem einstakir þm. vilja telja galla á frv. og því afnema, hvort það yrði ekki einmitt til þess að skemma l. sem heild, svo að við það tapaðist meira en ynnist. Ég hygg að meginstefna l. skemmdist með slíkri breytingu.

Þá vil ég víkja að því, sem hv. 10. landsk. var að tala um, að Búnaðarfélag Íslands ætti að skipa mann í nefndina. Mér finnst ekki ástæða til þess að segja mikið um þetta. Mér finnst þetta ómerkilegar hártoganir og karp hjá hv. þm. Ég sé enga ástæðu til þess, að þetta félag skipi mann í nefndina, því bændur hafa önnur félög, sem annast sölu á afurðum þeirra. Það var sjálfsagt að skipa fulltrúa frá þeim og láta Búnaðarfélag Íslands sitja á hakanum. Neytendurnir hafa ekki samskonar verzlunarfélög, og því var ekki um slík félög að ræða, þegar valdir voru umboðsmenn fyrir þá. Það vita allir, í hvaða tilgangi þetta er borið fram. Hv. þm. staðhæfði, að annarsstaðar skipuðu bændurnir alla mennina í nefndina. Þetta er sagt alveg út í loftið, og er í rauninni ekki svaravert. Í Englandi og Svíþjóð skipar stjórnin t. d. í nefndina.