25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Auðunn Jónsson:

Ég þakka frsm. landbn. fyrir það, að landbn. ætlar með till. á þskj. 205 að leyfa þeim, sem erfitt eiga með að koma afurðum sínum í sláturhús, að selja beint til neytenda. En þetta verður auðvitað framkvæmdaratriði og lagt á vald verðlagsnefndarinnar, og það getur verið, að hún fari ekki að öllu leyti eftir till. landbn. Það er því ekki óþarft, að brtt. mín á þskj. 168 um kjötsölufélög bænda verði samþ.

Ég er ósammála meiri hl. n. um að hækka verðjöfnunargjaldið. Það er alveg óvíst, hvaða jöfnuður næst með því. Ef finna á jöfnuð handa framleiðendum, þá kemur margt til greina. Það má nefna það sem dæmi, að kostnaður við heyöflun er svo ákaflega misjafn í hinum ýmsu héruðum. Í sumum héruðum þarf 2-3 hundruð kg. af heyi til að fóðra kindina, en í öðrum 30-50 kg. Víða á Vesturlandi er t. d. svo dýrt að afla fóðurs, að það mun kosta nærri 12 kr. að fóðra kindina. Á öðrum stöðum kostar það kannske ekki nema 3-4 kr. Þetta veldur mjög misjafnri aðstöðu til þess að framleiða kjöt. Hvernig er þá með verðjöfnunargjaldi hægt að bæta úr þessu misræmi í framleiðslukostnaði? Ef gera á öllum jafnt, sem stunda sauðfjárrækt, þá verður að taka öll þessi atriði til athugunar. Það er alls ekki of mikið, þó þeir, sem kosta 12-14 kr. til að fóðra kindina, fái 15 kr. fyrir lambið. Það sjá allir, að það er miklu betra fyrir þá, sem eyða ekki nema 3-4 kr. í að fóðra kindina, þó að þeir fái ekki nema 10-12 kr. fyrir lambið. Hv. frsm. sagði, að það ríkti meiri samhugur um framkvæmd l. en búast hefði mátt við. Það getur verið, að það sé í sumum héruðum. Á Vesturlandi veit ég, að mikil óánægja er út af því, að bændur skuli þurfa að brúka milliliði, sem auka kostnaðinn við sölu kjötsins. Flestir bændur á Vesturl. hafa sloppið við milliliðina og selt kjötið beint eða haft vöruskipti. Ég vænti, að hv. deild sjái, að það er heppilegra, þar sem því verður við komið.