05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

27. mál, sláturfjárafurðir

Sigurður Einarsson:

Ég get nú ekki annað en látið það í ljós, að mér finnst hæstv. ráðh. og þeir aðrir, sem sérstaklega hafa talað á móti till. mínum, gera of mikið úr þeirri hættu, sem þær kunna að fela í sér fyrir megintilgang þessarar lagasetningar og frv. í heild, og þeir gleyma því, sem þó greinilega kemur fram í till. sjálfum, að hér er aðeins um slátrunarleyfi að ræða fyrir það fé, sem ætlað er til neyzlu meðal meðlima neytendafélagsins sjálfs.

Þegar ég samdi till., virtist mér fyrir það girt, að þetta gæti orðið víðtæk starfsemi og að þessari löggjöf væri nokkur óréttmæt hætta búin með henni. Hinsvegar hefi ég svo greinilega lýst yfir fullum velvilja mínum í garð þessa máls, að ég tel ástæðulaust að gera þessar till. mínar að neinu kappsmáli við þessa umr. málsins. Ég get af því, sem upplýst hefir verið nú við umr., lýst því yfir, að ég get sætt mig við þá úrlausn málsins, að þessi heimild til neytendafélaganna væri miðuð við, að ekki væri sláturhús á staðnum og þannig í haginn búið, að þetta gangi eftir nokkuð öðrum reglum en í Rvík. Eins og ég lýsti yfir í fyrri ræðu minni, get ég líka sætt mig við aðra úrlausn, ef tilganginum, sem felst í þessari till., er annars fullnægt. Þess vegna áskil ég mér rétt til þess að bera fram brtt. við 3. umr. þessa máls. Ég get t. d. ve1 sætt mig við þá úrlausn, að það væri heimild, en ekki skylda að veita þessi leyfi, og er ég ekki frá því að athuga það nánar, hvort þá heimild skyldi þá ekki binda við það, að ekki væri sláturhús á staðnum, og svo mætti skylda þessi félög til þess að færa að því gild rök fyrir kjötverðlagsnefnd, að neytendunum væri þetta fyrirkomulag hagræði án þess að það væri framleiðendunum á neinn hátt til skaða.

Þar sem ég tek þannig í þetta mál, þykist ég vera varinn fyrir öllum kaldyrðum um vilja til þess að spilla þessu máli. Þeir, sem viðhafa slík orð hér í d., ræða ekki málið af þeirri stillingu, sem ég þykist gera. Þess vegna er það bara skoplegt, þegar hv. þm. V.-Húnv. er að hreyta til mín skömmum og stóryrðum, að ég sé eins og útspýtt hundskinn og með ofstopa í þessu máli. Ætlar hv. þm. að telja d. trú um, að dauðmeinlaus maður eins og ég sé með ofstopa í kjötverðlagsnefndinni, og jafnvel þó verri nefndir væru? Það væri að bíta höfuðið ofan af skömminni að halda slíku fram, og ekki ætlandi jafnvel hv. þm. V.-Húnv. En þótt ég hefði verið með ofstopa í þessu máli, þá var hann meinlaus, því að hann hefir þá einungis verið sýndur til þess að rétta hlut þeirra manna, sem gleymdust við setningu þessara laga. En því er svo farið um hv. þm. V.-Húnv., að meinleysi hans er hættulegra en allur hans ofstopi, eins og öll hans pólitíska saga ber með sér.