05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

27. mál, sláturfjárafurðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Hv. á. þm. Reykv. þótti það hin mesta goðgá, að ég skyldi segja, að það væri algengt, að vörur væru seldar hærra verði innanlands en utanlands. Ég vil þá spyrja hann að því, hvenær íslenzkur fiskur sé seldur hærra verði utanlands en í Reykjavík. (PHalld: Það er annarskonar vara). Það er líka annarskonar vara nýtt kjöt á innanlandsmarkaðinum hér á haustin en saltkjöt upp úr tunnum úti í Noregi, þegar komið er fram á vetur eða vor. Það er algengt til þess að halda uppi verði í landinu. Þannig var það t. d. með smjörið í Noregi í sumar.

En þegar hann er að tala um það, að vörur safnist fyrir í landinu, þá vil ég spyrja hann: Hvernig er það með fiskinn? Afli í ár var fyrir neðan meðallag. Þó eru nú meiri birgðir óseldar í landinu en í fyrra, og ekki er annað að sjá en þær vaxi enn. Það verður því að reyna að afla sér nýs markaðar innanlands og utan og nota sem allra bezt þann markað, sem við höfum nú. Og til þess að nota innanlandamarkaðinn sem bezt eru þessi l. sett, og þessu marki munu þau líka ná.