08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

27. mál, sláturfjárafurðir

Bjarni Bjarnason:

Hv. þm. Snæf. vildi siða mig og sagði, að ég hefði hagað mér óþinglega, og má vel vera, að ég hafi gert það. En ég býst við, ef hv. þdm. ætla að fara að siða, þá gæti orðið vafamál, til hvers ætti að tala fyrst. - Ég vildi segja örlítið um brtt. Vitanlega geta allir þm. verið sammála um það, að verðjöfnunargjaldið sé nógu hátt fyrir þá, sem greiða það, þó það sé ekki nema 6 aur. pr. kg. Þó mun ég ekki óska vegna minna kjósenda, að það verði fært niður úr því, sem það er nú í frv., eða 10 aur. pr. kg. Er algerlega óséð enn, hvort það nægir til að gera þá bændur, sem þurfa að selja kjöt sitt á erlendum markaði, sæmilega ánægða. Þetta er alvörumál, sem þarf að leysa með hag allra bænda fyrir augum. Ég vildi óska, að útflutningskjötið seldist svo vel, að 6 aur. nægðu til að gera seljendur ánægða. En sýni hitt sig, að sjóðurinn með 6 aur. tillagi verði ekki nógur til að gera bændur sæmilega ánægða, hvort viljum við þá heldur vera dálítið örlátir að leggja í verðjöfnunarsjóð, og hafa bændur, er flytja út, ánægða, eða halda fast í að hafa verðjöfnunargjaldið sem lægst, eða ekki neitt, en fá þá, eða hafa svo sem verið hefir, samkeppni um innanlandsmarkaðinn? Ég geri ráð fyrir, að okkur hv. þm. Snæf. greini ekki á í þessu efni, að jafna beri þetta svo, að sem flestir séu ánægðir, og komast sem næst því að fullnægja öllum. Ég vil endurtaka það, að það muni ekki vera „praktískt“ fyrir mig gagnvart mínum kjósendum að tala fyrir hækkun verðjöfnunarskattsins, en ég lít á málið með hag allra bænda landsins fyrir augum.

Hv. 5. þm. Reykv. taldi, að lögin væru óskýr að því, er snerti starfssvið kjötverðlagsnefndar. Ég geri ráð fyrir, að reglugerð bæti úr því, svo sem venja er. Ennfremur sagði hann, að ákveða yrði sannvirði kjötsins. Hið raunverulega sanna og rétta framleiðsluverð hefir ennþá reynzt ofurefli að finna. Eða hver vill gefa ákveðið svar um það? Það er vitanlega mjög breytilegt eftir héruðum, staðháttum og kröfum til lífsþæginda. Ég held, að við verðum að viðurkenna í allri hreinskilni, að það sé viðtekin regla, að hver skari eld að sinni köku, eftir því sem hægt er. Seljandinn haldi vörunni í svo háu verði sem hægt er, en kaupandinn gefi það minnsta, sem hann kemst af með. - Þetta er regla hinnar frjálsu samkeppni. Ef um samtök og skipulag er að ræða, verður að taka báðar þessar kröfur til greina og reyna að finna leið, sem báðir aðilar geta sætt sig við. Það, sem einnig verður að gera í þessu máli, er að fara sem næst hagsmunum beggja aðila. Það getur verið, að frjáls samkeppni geri þetta að nokkru leyti líka, en er þó hæpið. Því hver einstaklingur berst þó fyrst og fremst fyrir sínum persónulegu hagsmunum án frekari viðsýni. Ég vil ekki segja neitt um eða láta hafa eftir mér, hvað sé hæfilegt framleiðsluverð - sannvirði - samanborið við lífskröfur og framleiðslukostnað. (PHalld: Er ekki gott að vitna í nefndina?). Getur verið, og ef aðrir vita betur, þá sýni þeir og sanni, hvað er sannvirði kjöts á Íslandi á hverjum tíma.