08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

27. mál, sláturfjárafurðir

Sigurður Kristjánsson:

Út af þeirri brtt., sem við hv. þm. Snæf. flytjum, hefi ég lítið að segja, þar sem hann hefir tekið það allt fram, sem máli skiptir. En út af andmælum viðvíkjandi beinni sölu vil ég segja það, að alveg er bersýnilegt, að þau stafa af ókunnugleika, þegar því er haldið fram, að bein sala muni kippa fótum undan þessari löggjöf. Ég held, að þeir menn, sem halda slíku fram, séu alveg ókunnugir staðháttum. Ég veit ekki betur en að hingað til Rvíkur hafi talsvert af kjöti verið selt beint til neytenda, og ég veit ekki betur en að Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Borgfirðinga hafi þrifizt prýðilega þrátt fyrir það. Margir af þeim bændum, sem þannig hafa selt beint, hafa haft fasta viðskiptamenn, sömu menn í áratugi, og er ekki hægt að sjá, að þessi viðskipti hafi orðið neinum til meins. Nei, þetta stafar ekki af öðru en hinum mikla einokunar- og bannanda, sem hér ríkir hjá stjórnarliðinu, sem álítur það aðeins til tjóns og niðurdreps fyrir þjóðina, að nokkur maður fái að vera frjáls gerða sinna í smáu eða stóru. Ég vil benda á það, að frjáls sala er ákaflega mikils virði fyrir bændur í því héraði, sem ég þekki bezt til. Þar selja bændur þannig a. m. k. helming af kjötframleiðslu sinni. Fjöldi bænda þar ýmist saltar eða reykir kjöt sitt heima og selur það síðan þannig. Ég veit ekki til, að sú sala hafi gert nokkrum ógagn, en þessum mönnum er mikið tjón gert með því að banna þeim að verzla þannig með sína vöru. Þar er víða afarerfitt með samgöngur á landi, og flutningar á sjó eru miklu óþægilegri með lifandi fé heldur en með sláturfjárafurðir. Enda get ég bent á það, að Ísafjarðarkaupstaður, sem kaupir mikið af kjöti, bæði handa sjúkrahúsi og gamalmennahæli, hefir keypt það mest hjá einum manni, sem fengið hefir orð fyrir að verka allra manna bezt kjöt þar um slóðir. Nú er lagt mest kapp á að banna þessa beinu sölu; það kapp getur ekki stafað af öðru en ástæðulausri tortryggni og ótta fyrir þeim málstað, sem barizt er fyrir. Það er eins og hv. stjórnarflokkum sé það mestur þyrnir í augum, að nokkur maður sé frjáls að nokkrum sköpuðum hlut, að því er virðist. Maður getur látið sér detta í hug, að tilgangurinn með því að banna þessa beinu sölu sé ef til vill sá, að sporna við því, að bændur geti fengið staðgreiðslu fyrir afurðir sínar, svo að þeir geti ekki gert innkaup á vörum til heimila sinna gegn staðgreiðslu þar sem þeir fá bezt kjör. Ég veit, að ákaflega mikill fjöldi bænda bíður þess með eftirvæntingu að vita, hvort þessi hv. samkoma ætlar að heimila frjáls viðskipti á þessu svæði eða ekki. Það er enginn vafi á því, ef þau verða heft, að það verður skilið svo, að það sé gert af tómri meinsemi, en ekki af neinni nauðsyn, því það er gefið, að ef takmarkið hefði verið það eitt, að gera verzlunina sem hagkvæmasta fyrir alla, þá hefðu þessir menn ekki farið að hengja hatt sinn á þessi aukaatriði. En ég er sannfærður um, að það er annað, sem vakir fyrir forsprökkunum.

Hér er ekki hv. þm. A.-Húnv. viðstaddur, en mér þótti einkennilegt, þegar hæstv. landbrh. vék því að honum, að það gæti ekki verið af heilum hug til samvinnufélagsskaparins, að hann legði það til, að samvinnufélög, sem hér eftir yrðu stofnuð, fengju slátrunarleyfi og söluleyfi. Ég veit ekki, hvaðan hæstv. ráðh. kemur heimild til þess að drótta því að hv. þm. A.-Húnv., að hann beri óheilan hug til félagsskapar bænda, manns, sem verið hefir í kaupfélagi um áratugi og deildarstjóri þar einnig um áratugi. Mér þykir líklegt, ef slíkt er ekki sagt af gáleysi, að bak við sé ekki sem heilastur hugur, því hvaða ástæða getur verið til þess að banna þeim samvinnufélögum, sem stofnuð kunna að verða, að verzla með afurðir sinna eigin félaga? Ég fæ ekki séð, að það sé gert bændum til hjálpar. Ég mótmæli því harðlega þessum fjarstæðu sakargiftum hæstv. ráðh. á hendur hv. þm. A.-Húnv., sem við engin rök hafa að styðjast.

Viðvíkjandi brtt. hv. 9. landsk. á þskj. 347 skal ég taka það fram, að hún er nú orðin aumasti kripplingur fyrir það, að hæstv. landbrh. misþyrmdi henni í fæðingunni, og er hún því minna virði en hún var áður, en ég skal lýsa því yfir, að ég hefi ekki geð á því að níðast á öðrum eins vesalings aumingja og mun því ljá henni atkv., þó mér dyljist ekki, að hún er nú lítils virði miðað við það, sem hún áður var, meðan hún fól í sér ákvæði um frjáls viðskipti milli seljenda og kaupenda. Það var ekki annað en það, sem hefir átt sér stað bæði hér og annarsstaðar, og hafa félög bænda þrifizt prýðilega við hliðina á þeirri verzlun. Það getur því ekki verið önnur ástæða en sú til að banna þessi frjálsu viðskipti, að hefta eigi sem mest umráð manna yfir eigin eign. En sú stefna er af illum toga spunnin og leiðir til ills eins.