14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

112. mál, útflutningur á síldarmjöli

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég á hér litla breytingartillögu við breytingartillögu á þskj. 391. Þar er gert ráð fyrir, að heimild sé veitt til þess að banna útflutning á síldarmjöli. Nú finnst mér, að það sé ennþá e. t. v. nokkuð hart að orði kveðið, því samkv. brtt. er stj. veittur réttur til að banna útflutning, en ekki takmarka hann. Gæti þó í ýmsum tilfellum verið ástæða til að byrja á því að takmarka útflutninginn án þess að banna hann alveg, m. a. til þess að tryggja það, að útflytjendur væru ekki kyrrsettir með mjög mismunandi birgðir. Ef ástæða þætti til að takmarka útflutninginn, yrðu þau ákvæði sett gagnvart öllum útflytjendum síldarmjöls. Ætti niðurstaðan þannig að verða sanngjarnari, og stj. væri auðvelt að halda eftir í landinu svo miklum fóðurbæti, sem nauðsyn þætti til. Annars gætu sumir verið búnir að flytja út allar sínar birgðir, þegar bannið væri sett á, en aðrir sætu uppi með meiri hlutann af sínum birgðum.

Annars vil ég nú halda, að yfirleitt þurfi ekki til þess að taka að banna útflutning á síldarmjöli, vegna þess að mönnum á að vera í lófa lagið að útvega sér nægilegt síldarmjöl í gegnum ríkisverksmiðjurnar, ekki sízt eftir þeim reglum, sem teknar voru upp á síðastl. sumri, þar sem lengdur var fresturinn, sem menn hafa til að gera pantanir til verksmiðjanna, ef sú breyting væri gerð mönnum nægilega kunn. Menn eru yfirleitt búnir að sjá það, þegar kemur fram í september, hvað menn þurfa af fóðurbæti. A. m. k. var það sjáanlegt strax í septemberbyrjun í sumar, að mikinn fóðurbæti vantaði, og þegar menn eru búnir að reka sig einn sinni á eins og í sumar, þá hygg ég, að menn verði vel á verði um þetta framvegis. Ég tel varhugavert að setja miklar hömlur á útflutning síldarmjöls; m. a. getur það valdið verksmiðjunum erfiðleikum vegna plássleysis, og með tilliti til markaðsins getur einnig verið óheppilegt að draga útflutninginn. Verður að ganga út frá, að allar stj. fari varlega í að banna útflutning síldarmjöls, þó frv. verði samþ. Þótt sjálfsagt sé að hugsa um hagsmuni bænda í þessum efnum, þá verður einnig að gæta þess, að gera ekki verksmiðjunum of erfitt fyrir um afsetningu á sínum vörum.