17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

22. mál, verkamannabústaðir

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. Hafnarf. telur sig vita allt, sem skeður í Hafnarfirði, og þyrfti ég því ekki að gefa sér neinar upplýsingar um það. Ég veit, að það þarf ekki að segja hv. þm. Hafnf. frá því, að tekjur byggingarsjóðs var búið að éta upp til annars, og að klórað hefir verið saman í hann aftur nýlega. Hann veit líka vafalaust um fleiri hafnfirzka sjóði, sem sömu leið hafa farið. En hv. þm. Hafnf. veit ekki allt, sem gerist í Hafnarfirði. T. d. er það misskilningur, að ég hafi ekki komið til Hafnarfjarðar fyrr en í vor. Ég hefi oft komið þangað áður, en það er til allt of mikils mælzt, að hv. þm. sé á þveitingi um allar götur eins og varðhundur, til þess að athuga, hverjir komi í bæinn. En þó að ég komi sem sagt nokkuð oft til Hafnarfjarðar, verð ég að játa, að ég er ekki svo kunnugur bæjarmálum þar sem skyldi. Ég verð að meðganga það, að ég hefi ekki farið allskostar rétt með um stofnun byggingarfélaganna þar. Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna var stofnað fyrst, en þá ruku jafnaðarmenn upp til handa og fóta og stofnuðu annað. Og þegar félögin voru orðin tvö, bauð félag bæjarstjórans meðlimum hins félagsins að ganga í félag jafnaðarmanna og leggja sitt félag niður, en því boði var hafnað. Það var fyrst og fremst af því, að byggingarfélag bæjarstjórans var svo seint á sér með allar framkvæmdir, að það hefir ekkert gert fyrr en ef til vill nú. Hv. þm. hélt því fram, að sjóðstjórnirnar gætu ekki sett skilyrði fyrir lánum. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Sjóðstjórnirnar geta meira að segja neitað um lán, ef þeim býður svo við að horfa. Hv. 2. þm. Reykv. upplýsti, að þetta hefði oft verið gert. Og hv. þm. Bolvíkinga skýrði frá því, að mörgum litlum félögum úti um land hefði verið neitað um lán. Það liggur í augum uppi, og þarf ekki um það að deila, að sjóðstjórnirnar geta ráðið öllu um þessar lánveitingar.