20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Út af brtt. hv. þm. Snæf. vil ég segja það, að óþarfi er að fara að taka upp þær deilur, sem hér hafa verið í umr., því í umsögn bæjarráðsins kemur ekkert nýtt fram. Þar er ekki um annað að ræða en það, að þeir, sem standa að baki hv. þm. Snæf., hafa falið formanni sprengifélagsins, Bjarna Benediktssyni, að semja þessa umsögn, og mátti því fyrirfram vita, hvernig hún mundi verða, enda voru tveir af bæjarráðsmönnunum á móti henni. (JakM: Meiri hl. á að ráða). Já, meiri hl. í þinginu á líka að ráða um löggjöfina, en ekki meiri hl. bæjarstj. Reykjavíkur. (JakM: Þingmeirihlutinn á ekki að ráða bæjarmálum Reykjavíkur). Þingmeirihlutinn á að ráða, hvaða ráð bæjarstj. Rvíkur og aðrar bæjarstj. eiga að hafa. Löggjöfin ákveður valdsvið bæjar- og sveitarstjórna.

Viðvíkjandi samábyrgðinni, sem tekið er fram í umsögninni, að mörgum sé illa við, er það að segja, að það er ekkert keppikefli fyrir Byggingarfélag verkamanna að halda í samábyrgðina, nema að því leyti sem nauðsyn krefur til þess að það falli undir samvinnulögin. Ég fyrir mitt leyti mundi fallast á að takmarka samábyrgðina við sérstakar deildir í hvert skipti. Að svo var ekki gert upphaflega, var ekki fyrir það, að menn væru mótfallnir að takmarka ábyrgðina, heldur af því það atvikaðist nú svo, að hitt var talið nauðsynlegt, og félagsmenn voru hinsvegar ekki hræddir við almenna samábyrgð.

Aftur er það blekking, sem haldið er fram í umsögninni, að megináherzla sé lögð á stórar sambyggingar í Byggingarfélagi verkamanna. Allir, sem hafa viljað byggja, hafa skoðað ýmiskonar teikningar og kostnaðaráætlanir, og þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu að þetta væri praktiskasta byggingin fyrir sig. Lóðin, sem félagið fékk hjá bænum, gerði það líka að verkum, að byggja varð sambyggingar. Ef byggja hefði átt sérstæð hús með sérstökum blettum, hefði þurft miklu stærri lóð, og heilt gatnakerfi fyrir 100 íbúðarhús, og má geta nærri, hvernig hefði orðið um umferð til húsanna, þegar íhaldsmeirihluta bæjarstjórnar Reykjavíkur hefir ekki þóknazt enn að leggja veg nema á tvær hliðar sambygginganna, sem byggðar eru í ferhyrning, en á tvær hliðar er allt í svaði og þarf þó ekki nema lítinn hluta þeirrar gatnalengdar kringum sambyggingar, sem þyrfti meðfram sérbyggðum húsum. Yfirleitt má segja, að það sé ekki erfiðislaust að koma upp sæmilegu húsnæði fyrir alþýðu í bæ eins og Reykjavík, þar sem íhaldið stjórnar og spyrnist á móti af öllum kröftum. Það er langt frá því að félagið sé nokkuð á móti því að byggja sérstæð hús handa þeim, sem þess óska, ef þau reynast ekki ofviða hvað kostnað snertir. Svo er til millileið milli sérstæðra húsa og sambygginga, nefnilega að byggja sérstök hús sambyggð, hafa hvert hús sérbyggt en ekkert bil á milli húsanna. Fleiri möguleikar eru til og í hinu starfandi byggingarfélagi verkamanna verða þeir væntanlega allir athugaðir. Lóðirnar, sem félagið hefir fengið, eru nú fullbyggðar, og þegar byggt verður næst, verður áreiðanlega athugað vandlega, á hvern hátt heppilegast sé að byggja.

Ég verð að segja, þó það raunar skipti ekki miklu máli, að ég efast stórlega um félagatölu þessa nýja byggingarfélags, sem hefir verið talin hér 350. Eftir því, sem hv. þm. segir, er sjóður félagsins aðeins 2700 kr., en þó þessir 350 félagar væru ekki búnir að greiða nema eitt árstillag, ætti sjóðurinn að vera 5250 kr. Annaðhvort ætti því sjóðurinn að vera stærri en hv. þm. segir, eða félagsmenn hafa ekki greitt sín gjöld. Aftur er það þannig í hinn félaginu, að samkv. aðalfundarsamþykkt skal strika þá félaga út, sem ekki hafa greitt árgjald undanfarandi árs á aðalfundi. Það er litið svo á, að það sé svo mikill ávinningur fyrir menn að vera í þessum félagsskap, að það þurfi ekki að vera að elta þá uppi til þess að ná inn félagsgjöldunum, að menn eigi að gæta þess sjálfir að vera löglegir félagsmenn. Af þessum ástæðum hefir fjöldi meðlima verið strikaður út af félagsskrá Byggingarfélags verkamanna en áhugasömustu mennirnir eru eftir, en árgjaldið, 5 kr., er það lágt, að öllum á að vera kleift að vera meðlimir.

Það er búið að ræða svo mikið um það, hvort betra sé að hafa eitt félag eða fleiri á hverjum stað, að ég ætla ekki að fara frekar út í það. En meiri hl. n. sér ekki neinn mun á þeirri brtt. hv. þm. Snæf., að hafa tvö félög í Rvík, frá því sem áður var, því það er ekkert meiri ástæða til að hafa tvö félög hér heldur en annarsstaðar, eins og glöggt kom fram í ræðu hv. þm. V.-Ísf.

Hvað snertir brtt. hv. þm. V.-Ísf., þá er meiri hl. n. þeim samþ. Samkv. þeim á að vera hægt að stofna sérstakar deildir innan félagsins, sem geta haft sérsamþykktir fyrir sig, þó að sjálfsögðu innan ramma félagslaganna. Það getur vel viljað til, að einhverjir af félagsmönnum vilji hafa eitthvað sérstaklega sameiginlegt fyrir sig öðruvísi heldur en aðrir félagsmenn, og er ekki nema sjálfsagt að leyfa það, svo framarlega, að það komi ekki í bága við hagsmuni félagsins í heild. Eins álít ég til bóta að tiltaka, hvað kostnaðurinn má vera hæstur á hverja íbúð, eins og hv. þm. V.-Ísf. leggur til.

Slíkt hámark er í l. um samvinnubyggingarfélög, en hefir vantað í þessi lög.

3. brtt. hv. þm. V.-Ísf., sem við erum líka samþykkir, er í þá átt, að hægt sé að leita til fleiri sérfróðra manna um uppdrætti heldur en nú er. Það er að mestu sama till. eins og hv. þm. Vestm. flytur, en þó fyllri og betur í samræmi við málfæri frv. Auk þess er í till. hv. þm. V.-Ísf. þetta látið koma undir úrskurð atvmrh., svo félögin geti ekki án nokkurs eftirlits látið gera uppdrætti og fá þá greidda úr ríkissjóði. Í till. hv. þm. V.-Ísf. er allt það, sem hv. þm. Vestm. vill fá inn í frv., og finnst mér því, að hann ætti að taka sína till. aftur og fylgja till. hv. þm. V.-Ísf.

Um fyrri brtt. hv. þm. Vestm. er það að segja, að hún skiptir ekki miklu máli, því ef frv. er samþ. þannig, að eitt félag sé á hverjum stað, þá er sú heimild fyrir hendi, sem brtt. fer fram á, en ef félögin væru tvö, má segja, að þessi breyt. skaðaði ekki, en ég býst við, að heimildin yrði sjaldan notuð; hún á helzt við þar, sem um sambyggingar er að ræða.

Ég skal taka það fram, að meiri hl. n. er samþ. brtt. hv. 1. landsk., sem hann hefir að vísu ekki talað enn fyrir. Hún er aðeins um að taka upp í frv. ákvæði um, hvaða byggingarfélag skuli vera gilt, ef samþ. er, að ekki skuli vera nema eitt á hverjum stað.