20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

22. mál, verkamannabústaðir

Thor Thors:

Hv. þm. V.-Ísf. byrjaði á því, þegar hann fylgdi brtt. sínum úr hlaði, að hann sæi ekki, að menn gætu haft tilhneigingu til að stofna fleiri en eitt byggingarfélag á sama stað af öðru en pólitískum ástæðum. Hann vék nú raunar frá þessu síðar í ræðu sinni. En ég vil segja hv. þm. það, að í Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna eru verkamenn úr öllum stjórnmálaflokkum. Þar eru framsóknarmenn, þar eru jafnaðarmenn og þar eru sjálfstæðismenn. Það, sem dregið hefir þessa menn saman til félagsmyndunar, er, eins og ég hefi áður getið um í ræðum mínum og hv. þm. V.-Ísf. komst ekki hjá í sinni ræðu, ágreiningurinn um það, á hvern hátt byggt er og hvernig samábyrgðinni er háttað.

Hv. þm. V.-Ísf. þykist ætla að leysa allan ágreining með því að staðhæfa, að annaðhvort hljótum við að álíta þetta frv. fullnægjandi, eða þá að skoða till. hans sem endurbót á því. Hvorttveggja er rangt. Í till. hv. þm. stendur:

„Heimilt er að stofna deildir, sem hafi sérsamþykktir, innan byggingarfélags, þegar 50 félagsmenn eða fleiri óska þess, enda séu þær staðfestar af stjórn félagsins“.

Þarna er stj. félagsins gefið vald til að gera þessa tilhneigingu til deildastofnunar að engu. Með allri virðingu fyrir hv. þm. V.-Ísf. verð ég að halda því fram, að hér sé um káktill. að ræða, sem ekki leysi málið.

Þá staðhæfir hv. þm., að hér sé enginn réttur af mönnum tekinn. Ég hefi þegar bent á, að þessir 350 menn, sem lagt hafa fram fé í þessum tilgangi, þykist mega ráða, undir hvaða skilyrðum og með hvaða mönnum þeir leggi fram féð. Það er réttur, sem veittur er öllum borgurum ríkisins samkv. stjórnarskránni. En nú á að svipta þessa 350 menn þeim rétti og þvinga þá til samvinnu við menn, sem þeir óska ekki samvinnu við, ef þeir eiga að geta notið þeirra hlunninda l., sem áður hafa verið veitt öllum þeim, sem uppfylla skilyrði þessara l.

Hv. þm. var að tala um, að hinir 350 menn í byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna gætu alltaf, ef þeir vildu, gengið inn í hitt félagið og gert þar stjórnarbyltingu. Þykir mér vafasamt, að það yrði málunum til framdráttar, ef fara ætti að hefja flokkadellur innan félagsins.

Þetta, að allir eigi að vera í einu byggingarfélagi, er hliðstætt því, að hv. þm. segði sem svo: Við erum allir stjórnmálamenn sammála um það að láta gott af okkur leiða. Við skulum því ekki vera að deila og halda uppi þessum mörgu flokkum. Við skulum ganga í einn flokk og velja okkur fríðan foringja og starfa saman upp frá því í bróðerni og eindrægni. Þetta myndi að vísu hljóma fallega, en ég býst þó ekki við, að lengi yrði friðsamlegt á því kærleiksheimili.

Viðvíkjandi þeim efa, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv. um þá meðlimatölu félags sjálfstæðra verkamanna, sem ég nefndi, þarf ég ekki annað að segja en það, að ég get hvenær sem er lagt fram sannanir fyrir því, að sú tala er rétt.

Hv. þm. hélt því fram, að í Rvík væri ekki meiri starfsgrundvöllur fyrir tvö félög en annarsstaðar á landinu. Ég vil í því sambandi láta mér nægja að minna á rök þau, sem hv. þm. Hafnf. færði fram. Þau rök bentu öll í þá átt, að þótt ekki væri ástæða til að hafa tvö félög í fámennum þorpum, þá væri full ástæða til þess í fjölmenni sem í Rvík.

Þessar brtt. hv. þm. V.-Ísf. gera í raun og veru enga breyt. á frv. Þær eru aðeins til þess að villa sýn. Annaðhvort eru menn með því, að tvö félög fái að starfa, hvort öðru óháð, eða menn vilja dengja öllu saman í eitt félag. Þá verða þeir virðulegu þm., sem skreyta sig með því, að þeir séu fulltrúar hinna vinnandi stétta, og vilja hið síðara, að athuga það, að þeir eru þarna að taka löglegan rétt af miklum hluta hinnar vinnandi stéttar í Rvík.

Þetta vildi ég sagt hafa, áður en ég legg till. mína á höggstokk einræðisbrölts og flokksofstækis hér á þingi.