09.03.1935
Neðri deild: 24. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

30. mál, útrýming fjárkláða

Guðbrandur Ísberg:

Hv. þm. Borgf. gat þess í sinni ræðu, að tvær stefnur væru uppi í landinu hvað útrýmingu fjárkláðans snerti. Annarsvegar eru þeir, sem vilja algerða útrýmingu, og hinsvegar þeir, sem ekki hafa trú á, að hún megi takast, en vilja halda kláðanum niðri með þrifaböðun. Hv. þm. gat þess, að kláðinn væri mjög misjafnlega útbreiddur. Ég hygg, að þarna sé önnur ástæðan fyrir því, að menn ekki í einu hljóði aðhyllast útrýmingarböðun. — Á síðasta Alþ. gaf hæstv. landbúnaðarráðh. skýrslu um útbreiðslu kláðans, eftir þeim upplýsingum, sem fengizt höfðu um það efni úr sýslum og kaupstöðum. Ég gerði þá engar aths. við þær skýrslur, vegna þess að málið lá þá ekki fyrir í frv.-formi. En ég vil geta þess nú, að þessum skýrslum er tæplega leggjandi mikið upp úr. Í því sambandi vil ég geta þess, að seint á árinu 1934 lagði atvmrn. fyrir sýslumenn hvarvetna að safna skýrslum í öllum hreppum um útbreiðslu fjárkláðans. Hvað Húnavatnssýslu snertir var strax horfið að þessari skýrslusöfnun, og tókst að mestu leyti að afla þeirra, nema hvað vantaði úr þremur hreppum, þar sem kláðinn er töluvert mikið útbreiddur. Töldu þeir, sem skýrslurnar áttu að útvega, þýðingarlaust að eiga við það, þar sem kláðinn væri að meira eða minna leyti á hverjum bæ. í ágústmánuði fékk ég svo bréf frá atvmrn., þar sem þess er beiðzt, að skýrslurnar séu sendar, en ég hafði þá sent þær frá mér fyrir 3 mánuðum. Þegar ég spurðist fyrir um, hverju þetta sætti, fékk ég þær upplýsingar, að skýrslurnar frá mér væru komnar, og að ég hefði verið sá einasti, sem hefði sent skýrslur á hinum tilsetta tíma. Nú vil ég leggja það undir dóm hv. þdm., hversu mikið þeim finnst upp úr slíkum skýrslum leggjandi, sem safnað er í ágústmánuði, og það í snarkasti. Það hefir verið símað til oddvitanna og fengnar þær upplýsingar, sem þeir mundu í bili, og skýrslurnar síðan samdar eftir því. Upp úr slíku er ekki mikið leggjandi. Í héruðum, þar sem kláðinn er lítið útbreiddur, hafa bændur talsverða tilhneigingu til þess að leyna því, þótt þeir verði kláðans varir. Þetta er eðlilegt, því að þegar allur fjöldinn er laus við kláða, er mönnum illa við að láta féð hafa samgang við kláðakindur. Ég vil sem dæmi þess, hvernig kann að vera ástatt í sumum þessum sýslum, geta þess, að haustið 1933 voru í Auðkúluhreppi í Húnav.s. seldar tvær kindur með kláða. Það hafði ekki komið fyrir um langan aldur. Kindurnar voru ekki úr Húnav.s., þeirri sýslu, sem þó er talin verst farin hvað kláða snertir, heldur úr Árnessýslu, en samkv. skýrslu landbúnaðarráðh. hafa í þeirri sýslu aðeins komið fyrir 2 kláðatilfelli á árinu 1934. Ég get ímyndað mér, að svipað sé annarsstaðar, þótt lítið eða ekki sé talið, að kláðans verði vart. Þeir menn, sem vilja láta þrifaböðun nægja, vita ekki, hver útbreiðslan er, og því skiljanlegt, að áhuginn fyrir allsherjarböðun sé lítill.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. En þeir menn, sem trúa því, að hægt sé að útrýma kláðanum, eins og næstum því tókst 1904, greiða allir atkv. með allsherjar útrýmingarböðun. En þeir hinsvegar, sem trúa því, að kláðamaur geti kviknað af sjálfu sér, þeir greiða atkv. með því að káka við þrifaböðun og halda kláðanum niðri á þann hátt, en útrýma honum ekki.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. að sumu leyti réttilega tók fram, að það vantaði ákvæði í frv. um eftirlitið í kaupstöðum, þá er það alveg rétt, að þótt tekið sé fram í frv., að böðunin skuli ná til alls fjár á landinu, hefir láðst að geta um, hversu eftirlitinn skuli hagað innan kaupstaðanna. Þetta stafar einungis af gleymsku, og ég vil beina því til hv. frsm. landbn., hvort ekki væri rétt að fá málinu frestað nú, svo að tími gæti unnizt til að lagfæra þetta.

Um brtt. hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Sk. hefi ég fátt eitt að segja. Ég get ekki séð, að þær séu stílaðar við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Þær eru umorðun á allt öðrum l., sem þetta frv. hreyfir alls ekkert við, þrifaböðunarlögunum frá 1914, og hefði því átt að koma fram sem sjálfstætt frv., eða sem breyt. við þau l. við þetta frv. eiga þær ekki heima. Af þessum ástæðum væri e. t. v. rétt að athuga þetta nánar í landbn., því að þessum brtt. svokölluðu er ekki útbýtt fyrr en málið kemur hér til umr.