30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

30. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Brtt. þessum .1 þskj. 322 var útbýtt fyrst nú á fundinum; hefir landbn. því ekki getað tekið afstöðu til þeirra. Til þess hefir enginn tími verið. Það var rétt, sem hv. 1. þm. N.-M gaf í skyn, að það kom til orða í landbn. að flytja jafnvel brtt. við frv., sem gengju í svipaða átt og brtt. þær, sem hv. þm. hefir nú flutt, sérstaklega þó að því er snertir fyrri brtt. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að ef farið væri nú að breyta frv., þá myndi það ekki ná samþykki áður en þinginu verður frestað, og með því væri útilokað, að af framkvæmdum gæti orðið næsta vetur. En það teldi ég svo mikinn galla, að ég þori ekki að breyta frv., tel það ekki ráðlegt, nema þá því aðeins, að um mjög nauðsynlega breyt. væri að ræða. En slík breyt. virðist mér ekki liggja hér fyrir. Ég verð því að taka það fram f. h. okkar nm., að við teljum ekki óhjákvæmilega nauðsynlegt að fara að breyta frv. nú, eftir því sem fyrir liggur. Ég skal játa, að ég fellst á ástæður þær, sem hv. 1. þm. N.-M. færði fyrir brtt. sínum, en ég tel, að það megi ná því sama, sem fyrir honum vakir, með framkvæmd málsins, og því sé ég ekki bráðnauðsynlegt að fella niður síðari málsl. 1. gr. frv. Það er alveg rétt hjá þessum hv. þm., að það væri kák eitt að framkvæma útrýmingarböðun á þann veg, að láta böðun falla niður í heilum sýslum, að eins ef fjárkláði hefði ekki verið talinn finnast þar síðustu 5 ár, og það þótt fé á því svæði hafi haft samgöngur við fé í öðrum héruðum. Ég geri bara alls ekki ráð fyrir, að ákvæði 1. gr. verði skilið svo, að heimilt verði að undanþiggja frá, útrýmingarböðun fénað, þar sem féð hefir samgöngur við fé í öðrum héruðum, heldur á þann veg, að þar sem undanþágan verður heimiluð, stafi fénu engin hætta af samgöngum við annað fé. Inn á þetta kom hv. þm. í ræðu sinni. Hann benti á, að sumstaðar hagaði svo til hér á landi, að héruð væru svo innilokuð af völdum náttúrunnar, að fé þaðan gæti engar samgöngur haft við fé úr öðrum héruðum. Það er einmitt þetta, sem átt er við með undanþáguákvæði 1. gr., að útrýmingarböðun skuli alstaðar fara fram um land allt, nema þar, sem svo er háttað af völdum náttúrunnar, að fé getur ekkert komizt út af vissu svæði, er algerlega einangrað frá samgöngum við annað fé, og kláði hefir ekki fundizt þar síðustu 5 árin. Með þessum skilningi á undanþáguákvæði 1. gr. greiði ég frv. atkv. óbreyttu, þó ég hinsvegar telji þetta undanþáguákvæði, sem sett var inn í 1. gr. frv., algerðan óþarfa, og hefði verið með að fella það burt, ef ekki hefði svona sérstaklega staðið á um þinghaldið.

Sama er að segja um síðari brtt. hv. þm., að ég tel hana ekki fjalla um svo stórvægilegt atriði, að tefja beri frv. hennar vegna, því að það er tæplega hægt að gera ráð fyrir, að tvíbaða þurfi á svo stórum svæðum, að þetta skipti máli. Annars er ég og þeirrar skoðunar, að sanngjarnt verði að teljast, að fjáreigendur greiði helminginn af baðlyfjakostnaðinum, því að þeir eiga að koma til með að hafa margfaldan hag af því, að fjárkláðanum verði útrýmt.

Það er aldrei nema rétt hjá hv. 1. þm. N.-M., að með frv. þessu, ef að logum verður, eru lagðar nokkrar kvaðir á fjáreigendur, en þess ber þá jafnframt að geta, að þeim er líka ætlað að hafa hlunnindi af því, sem eru mikils virði, sem sé að losna við þennan mikla vágest, sem fjárkláðinn er.

Ég fæ ekki skilið, að það geti verið mikil útgjöld fyrir fjáreigendur að afla sér böðunartækja, því að ég þekki þess vart dæmi, að ekki séu einhver baðtæki til á hverjum bæ, þar sem sauðfé er til á annað borð. Það er vitanlega rétt, að sundþrær eru ekki á hverjum bæ, en það eru þá til önnur tæki, sem notuð eru við þrifabaðanirnar og bjargast má við við útrýmingarböðun. Ekki voru sundþrær almennar við hina fyrri útrýmingarböðun.

Hitt er vitanlega rétt, að það er aukin heyeyðsla fyrir bændur, þar sem fara þurfa fram tvær baðanir. Mér þykir því rétt að endurtaka það, sem ég vek að við 2. umr. þessa máls, að beina því til stj. að hefjast ekki handa með útrýmingarböðun eftir slæmt sumar, heldur stilla svo til, að hún fari ekki fram nema þegar vel er ástatt um heyafla bænda, enda er það svo, að frv. tiltekur ekki neinn sérstakan tíma. Verði ástandið næsta haust t. d. eitthvað svipað því, sem það var síðastl. haust, þá tel ég ekkert vit í því að leggja upp með útrýmingarböðun. Sem sagt, ég treysti stj. til að sjá um, að ekki verði hafizt handa um þetta verk, nema þegar sýnilegt er, að sæmilega sé ástatt um heyafla bænda.