29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

31. mál, sparisjóðir

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

N. mælir yfirleitt með því, að frv. verði samþ., en meiri hl., þeir hv. þm. Snæf., hv. 8. landsk. og ég, vill gera breyt. á 2. málsgr. 1. gr. frv., um kosningu í stj. sparisjóða, sem eru sjálfeignarstofnanir og einstakir menn bera að öllu leyti fjárhagslega ábyrgð á. Meiri hl. n. taldi ekki ástæðu til eða þörf að veita sýslunefndum og bæjarstjórnum vald til þess að hlutast til um stjórn þeirra sparisjóða, sem einstakir menn hafa með erfiði og fjárframlögum komið á fót. En hitt er annað mál, að ekki er nema réttmætt að auka eftirlitið, t. d. með því að veita bæjarstjórnum heimild til þess að kjósa endurskoðanda eða eftirlitsmann. Að vísu er fjmrh. falið samkv. 5. gr. frv. að hafa eftirlit með öllum sparisjóðum, og ætti það, ef framkvæmt verður, að gefa nokkra tryggingu.

Af kynningu þeirri og reynslu, sem ég hefi af sparisjóðum úti um land, eru þeir allir sjálfseignarstofnanir einstakra manna, sem standa ábyrgir fyrir skuldbindingum þeirra, og munu þessir menn yfirleitt fella sig illa við, að það vald, sem þeir hafa samkv. lögum, sé nú af þeim tekið. Enda sé ég ekki, eftir þeirri þekkingu, sem ég hefi af sýslunefndum úti um land — án þess að ég ætli að fara að kritisera þær —, að það sé nokkuð meiri trygging fyrir, að þær kjósi hæfari eða betri menn en þeir einstaklingar, sem bera þar fjárhagslega og siðferðislega ábyrgð. — Fleira þarf ég ekki að taka fram af hálfu meiri hl. n.

Hinsvegar er komin fram brtt. frá þeim hv. þm. A.-Húnv. og hv. 6. þm. Reykv., um að á eftir 5. gr. komi ný gr., svohljóðandi:

„Ef stjórn sparisjóðs óskar, skal ríkisstj. fyrir hönd ríkissjóðs ábyrgjast innstæður í sjóðnum, ef sannanir, sem fjmrh. tekur gildar, liggja fyrir um það, að sjóðurinn eigi meira en fyrir skuldum og stjórn og starfræksla sjóðsins er í samræmi við lög þessi“.

Ég hefi ekki borið mig saman við meðnm. mína um þessa brtt., en ég get ekki fellt mig við hana. Ég sé ekki ástæðu til þess fyrir ríkissjóð að hlaupa til og taka á sig slíkar ábyrgðir, a. m. k. ekki nema rækileg rannsókn fari áður fram. Og þó sannað sé fyrir ráðh., að sjóður eigi fyrir skuldum nú, getur það fljótlega breytzt, ef stjórn og starfræksla er ekki góð og óheppilega er með feð farið, og stafað hætta af fyrir ríkissjóð. Einkum er þetta óviðeigandi nú, þegar sporna á við því, að ríkissjóður taki á sig nýjar ábyrgðir fyrir fjármálastofnanir. Ég þekki ekki heldur til, að sparisjóðir þurfi að kvarta um, að þeir fái ekki fé, sem standa má inni lengri tíma. Hitt er vitanlegt, að þeir, sem þurfa að hafa hlaupareikningsviðskipti, verða að fara með fé til bankanna. Enda ekki leið til þess að skylda menn til að styðja stjórnina á þann hátt. En ég tel sjálfsagt, að flm. hafi borið brtt. fram í góðri meiningu, til þess að efla sparisjóðina með því að gefa þeim jafnrétti við bankana. En þess verður að gæta, að það stendur nokkuð öðruvísi á með bankana, sem enn þýðingarmeiri stofnanir, enda ekki hægt að benda á, að ríkisábyrgð til bankanna hafi orðið sparisjóðunum til tjóns.