27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég var ekki alveg við því búinn að svara fullyrðingu hæstv. atvmrh. um, að það væri meiri ástæða til að láta bankana gera skuldaskil fyrir togaraútgerðina fremur en bátaútveginn, vegna þess að skuldir togaranna væru mestar í bönkum, en skuldir, sem á bátaútveginum hvíla, væru mestar við einstaka menn. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt, en ég var ekki við því búinn áðan að hrekja þetta með tölum. Ég hefi það meira að segja á tilfinningunni, að þessi fullyrðing hæstv. ráðh. sé aðeins að litlu leyti rétt. Bátaútgerðin mun skulda öðrum lánardrottnum en bonkum kringum 6 millj. kr., þó er ekki hægt annað að sjá en sumt af því sé í bönkunum. því það er stór póstur, sem kallaður er aðrar skuldir og ekki er neitt flokkaður í framtölum manna, en í þessum pósti eru taldar veðskuldir, verzlunarskuldir og víxlar, og má ætla, að helmingur þessarar upphæðar, eða um 3 millj. kr., séu skuldir við banka.

Skuldir þær, sem vélbátaútvegurinn hefir hjá bönkum, eru að vísu ekki líkt því svona háar, svo skuldar bátaútvegurinn meira í ógreiddum vinnulaunum heldur en togaraútgerðin. Ógreidd vinnulaun hjá bátaútveginum eru 157 þús. kr., en hjá togaraútgerðinni er þessi upphæð engin. Þá eru skuldir hjá bátaútveginum fyrir hluti 131 þús. kr., en ekkert hjá togaraútgerðinni. Ógreidd opinber gjöld hjá bátaútveginum 10 þús., hjá togaraútgerðinni sama.

Svo koma þessar aðrar skuldir, sem eru hjá togaraútgerðinni 300 þús. kr. meiri en hjá bátaútgerðinni. Munurinn á þessum skuldum verður því alls ekki neinn, sem nemi verulegu. Ég held því, að þetta sé allt of völt undirstaða undir því að synja togaraútgerðinni um samskonar aðstoð og bátaútgerðinni.

Ég vil segja hæstv. ráðh. það, fyrst hann fór út í það, að bankarnir hafa ekki heimild til að gera upp skuldir nema á þann veg að gefa sjálfir eftir, eða þá að velta fyrirtækinu. Þegar bankarnir ganga þannig að fyrirtæki, þá er það meira og minna gert í þeim tilgangi að láta þá menn, sem hafa ótryggðar skuldir, tapa öllu, sem þeir hafa lánað. Síðan er fyrirtækið látið koma á annars hendur, sem er kannske betur til þess fallinn, kannske verr, býst við, að það verði svipað, upp og ofan. Bankarnir geta þannig aftur og aftur tekið fyrirtækin, og með því að hafa nafnaskipti á þeim geta þeir losað fyrirtækin við talsvert miklar skuldir, en setið eftir með allar sínar skuldir án þess að gefa eftir einn einasta eyri. Þessi skuldaskil eru gersamlega óviðunandi. Fyrst og fremst eru þau ekki fullnægjandi fyrir fyrirtækið, og í öðru lagi nálgast þau ákaflega mikið það, að vera svindl, sem jafnvirðulegar stofnanir og bankarnir mega ekki leggja stund á. Þess vegna álít ég, að þessi leið hjá hæstv. ráðh. sé ófullnægjandi og þar að auki óheilbrigð.

Hæstv. ráðh. segir, að ég hefði ekki getað sýnt fram á annað en að þær tölur, sem hann tilfærði með töpin, væru réttar. Ég var ekki að reyna að færa sönnur á annað. Hver, sem er las, getur tilfært þessar tölur rétt, og ekki efast ég um, að hæstv. ráðh. sé læs á tölur. Hitt sýndi ég fram á, að hann hefði ekki með þessum tölum sannað það, sem hann vildi sanna. Bæði sönnuðu tölurnar þetta alls ekki sjálfar, og í öðru lagi hefir hann gengið framhjá rökum, sem voru miklu meira virði í þessu sambandi en þau, sem hann koma með. Ég sýndi fram á, að hann hefði ekki með þessum tölum sýnt fram á, að það væri nær að styðja togaraútgerðina en bátaútveginn, þó að þær tölur, sem hann notaði, væru réttar. Það er hægt að blekkja með réttum tölum, ef þær eru notaðar í röngu sambandi og öðrum tölum sleppt, sem miklu meira máli skipta í málinu.