19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

75. mál, hæstiréttur

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég vil svara nokkrum orðum ræðu hv. þm. V.-Sk., sem var með talsverðum gorgeirsblæ, eins og hans var von og vísa. Þessi eiginleiki var það, sem ég tók fyrst eftir hjá þessum hv. þm. 1917 eða '18, og það er sami gorgeirsblærinn yfir honum enn í dag.

Það kann að vera, að hv. þm. viti ekkert um það mál, sem hann er að ræða um, og ef hann hugsar meðan hann talar, þá hugsar hann a. m. k. órökrétt.

Það hefir ekki verið hrakið, að dómarar þeir, sem nú sitja í hæstarétti, hafa ekkert próf tekið, enda þótt þeir hafi setið í öðrum dómum áður, eins og undirdómi. Það var að vísu mikið að gera í þeim dómi, en það var þó engan veginn neitt próf að sitja þar. Reynslan sýndi, að þótt pólitískur ráðh. veitti þessar stöður án prófs, þá gekk það svo vel, að rétturinn hefir verið prýðilega skipaður með þessu fyrirkomulagi.

Það hefir að vísu enn ekki reynzt, að dómarapróf sé skaðlegt, en það gæti hæglega orðið til skaða. Ég hefi bent á, að þeir, sem eiga að fara úr réttinum vegna aldurs, eiga að dæma um það, áður en þeir fara, hverjir séu hæfir til að taka við. Setjum svo, að þeir væru ekki farnir úr réttinum fyrr en hinir tækju við, því að um það stendur ekkert. í l. Hitt er aðeins staðhæfing hv. 8. landsk. (GÞ: En ef þeir væru dánir?). Ég get svarað því hiklaust, að þá myndu þeir ekki dæma í málinu. En þessir menn, sem e. t. v. eru orðnir fjörgamlir og sljóvir, eiga að ákveða, hverjir við skuli taka. Það er augljóst, að þetta getur orðið hættulegt, eða a. m. k. skaðlegt, og broslegt er þetta fyrirkomulag.

Ég skal ekki fara út í það, hverjir muni að jafnaði vera pólitískari, þeir, sem láta í ljós sínar pólitísku skoðanir, eða hinir. En ég hika ekki við að staðhæfa, að pólitískar skoðanir hafa ekki síður áhrif á menn, þótt þær komi ekki fram opinberlega.

Viðvíkjandi dómum þeim, er hæstiréttur hefir kveðið upp undanfarið, ætla ég ekkert að segja. Ég veit, hvað hv. þm. átti við, og ætla ég ekki að fara að deila við hann um það mál hér í d.

Ég læt svo máli mínu lokið með því að endurtaka þetta: Því hefir verið haldið fram, að hér sé verið að finna upp eitthvert alveg sérstakt form fyrir æðsta dómstól þjóðarinnar. En þetta er ekki annað fyrirkomulag en það, sem ríkir alstaðar í Evrópu, utan Danmerkur og Íslands, t. d. í Svíþjóð.