16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Thor Thors:

Ég kann því illa, að þetta mál fari gersamlega umræðulaust til 3. umr., meðan ekki er vitað, hvaða meðferð það frv., sem við hv. 8. landsk. flytjum um svipað efni, fær í hv. allshn. Ég vil því leyfa mér að ræða nokkrar gr. þessa frv. og bera fram fyrirspurnir til hv. flm. um það, hver er tilgangurinn með ýmsum ákvæðum þeirra.

Það kom upp nokkur ágreiningur milli háskólaráðsins og skipulagsnefndar atvinnumála um það, hvort rannsóknarstofa háskólans, sú er nú starfar, skyldi halda starfsemi sinni áfram og hvort hún eins og hingað til skyldi hafa með höndum lyfjasölu, eins og samþ. var með lögum frá síðasta þingi. Skipulagsnefndin breytti frv. sínu samkv. óskum háskólaráðsins þannig, að það virðist vera tilgangurinn að rannsóknarstofa háskólans fái áfram að verzla með lyf, en samt sem áður eru í grg. frv. ráðgerðar 30 þús. króna tekjur fyrir hina nýju rannsóknarstofnun af lyfjasölu. Þetta getur ekki staðizt, ef leyfa á rannsóknarstofu háskólans þessa starfrækslu, eins og mér skildist vera orðið samkomulag um milli skipulagsnefndarinnar og háskólaráðs.

Þá er tekið fram í 5. gr. frv., að hin nýja rannsóknarstofnun, þ. e. a. s. búnaðardeild hennar, skuli hafa með höndum búfjársjúkdómarannsóknir, en þær hafa hingað til verið í höndum rannsóknarstofu háskólans, og ég hygg, að það sé almannadómur, að hún hafi starfað til mikilla nytja að þessum rannsóknum og allir hlutaðeigendur séu ánægðir með það. Nú vil ég spyrja hv. flm. þessa frv., hv. 2. þm. Reykv., hvernig stendur á því, að þessar rannsóknir á að taka af rannsóknarstofu háskólans, enda þótt hún hafi öll tæki til slíkra rannsókna, og þau tæki, sem hún notar við rannsóknir mannlegra sjúkdóma, eru mikið þau sömu sem þarf til rannsóknar búfjársjúkdóma.

Við ákvæðin um stjórn þessarar nýju rannsóknarstofnunar, sem koma fram í 8. og 13. gr. frv., hefi ég það að athuga, að eðlilegt er, að forstjóri hverrar deildar ráði málefnum hennar, en séu fleiri en einn hlutgengir um stjórn hverrar deildar, skuli atvmrh. skera úr, en að öðru leyti fari um stjórn þessarar stofnunar eins og hverrar annarar deildar við háskólann. Við það ákvæði 13. gr., að skipa skuli nefnd, sem sé fulltrúi atvinnuveganna og ríkisstj. og rannsóknarstofnuninni sé skylt að ráðfæra sig við um viðfangsefni rannsókna sinna og leggja árlega fyrir skýrslu um fyrirhuguð viðfangsefni, finnst mér það að athuga, að ég er hræddur um, að þetta verði í reyndinni nokkuð þýðingarlaust eftirlit með rannsóknarstofnuninni, því vitanlega fer verkefni hennar ekki eftir árlega fyrirfram saminni áætlun, heldur verða þarfir atvinnuveganna á hverjum tíma að segja fyrir um, hvaða rannsóknarefni á að meta mest. Í frv. eru ákvæði þess efnis, að rannsóknarstofnuninni skuli vera skylt að sinna rannsóknum í þarfir atvinnuveganna. Þarf því ekki að óttast, að forstöðumenn hennar einskorði sig um of við sín sérstöku vísindalegu hugðarefni, þar sem á þeim hvílir bein lagaskylda að sinna viðfangsefnum atvinnuveganna. Það mun verða metnaður þessarar stofnunar, sem stofnuð er til þess að vinna í þágu atvinnuveganna, að láta sem mest nýtilegt frá sér fara og verða atvinnuvegunum að sem mestu liði. Þess vegna tel ég enga nauðsyn á að hafa slíka yfirstjórn eða eftirlitsnefnd, sem ráðgerð er í frv. Innan þeirra takmarka, sem frv. markar, hygg ég, að bezt fari á því, að þessi rannsóknarstofnun hafi, eins og önnur vísindastofnun og háskóladeild, fullt sjálfsforræði yfir sínum málum.

Þá verð ég að telja, að það sé varhugavert, svo sem ráðgert er í 14. gr. frv., að eigi megi þessi rannsóknarstofnun taka upp kennslu við háskólann í þeim fræðigreinum, sem hún hefir með höndum, fyrr en hún sjálf og atvmrh. telja að svo skuli vera. Hér er atvmrh. gefið algert stöðvunarvald um það, hvenær þessir vísindamenn, sem þarna starfa, skuli taka upp kennslu við háskólann og jafnframt fræðilega fyrirlestra fyrir almenning, eins og gera má ráð fyrir, að þeir gerðu þegar þetta væri orðin sjálfstæð deild við háskólann. Ef þetta frv. á að ná fram að ganga, eins og öll sólarmerki benda til, þá held ég, að betur færi á, að sett væri inn í það ákvæði um, að kennsla skuli hefjast þegar háskólaráðið telur þörf á því og skilyrði til þess fyrir hendi.

Þá hefi ég það við 15. gr. frv. að athuga, að þar er lögð sú skylda á háskólann að leggja fram 100 þús. kr. til byggingar þessarar stofnunar, en mér finnst háskólinn fá næsta lítið fyrir. Þetta 100 þús. kr. framlag yrði vitanlega til þess að tefja byggingu háskólans, en allir viðurkenna, að á henni er orðin hin brýnasta nauðsyn. Ég tel því eðlilegt, að ef háskólinn á að leggja fram þetta fé á annað borð, þá fái hann það endurgreitt á þann hátt, sem stungið er upp á í frv. okkar um atvinnudeild, að gjald það, sem háskólinn á að greiða ríkinu fyrir happdrættisleyfið, endurgreiðist honum unz allur kostnaðurinn við byggingu rannsóknarstofunnar er greiddur.

Þá verð ég að ætla, að sú kostnaðaráætlun, sem fylgir í grg. þessa frv., sé ekki allskostar rétt. Það er t. d. augljóst, að ef rannsóknarstofa háskólans á að fá að halda áfram lyfjagerð sinni og sölu eins og hún hefir rétt til samkv. lögum frá síðasta Alþingi, þá má ekki ætla, að þessi nýja rannsóknarstofnun hafi 30 þús. kr. tekjur af lyfjasölu. Þá er og vafasamt að reikna 15 þús. kr. tekjur af matvælarannsóknum, og það er ennfremur varhugavert að reikna 5 þús. kr. tekjur af fjörvi- og gerlarannsóknum, svo sem einnig er gert í grg. Það hafa kunnugir menn talið, að í stað þess sem stendur í grg. frv., að aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð verði 12 þús. kr., þá megi varla áætla þessi útgjöld minna en 50—60 þús. kr. Ég tel rétt, að menn reyni þegar í öndverðu að gera sér grein fyrir hinum raunverulega kostnaði, sem þessu máli er samfara, því blekkingar í þessu efni verða aðeins til þess eins og endranær að vekja óánægju síðar. Ég fyrir mitt leyti horfi ekki í að fylgja þessu máli fram, þó það hafi í för með sér töluvert aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, því ég er svo bjartsýn að vona, að það fé komi aftur til atvinnuveganna fyrir bættar aðferðir vegna þeirrar rannsókna atvinnuvegunum til framdráttar, sem vænta má, að þessi stofnun láti frá sér fara.