21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Páll Zóphóníasson:

Ég á hér 2 brtt. við 13. og 14. gr. frv. Seinni till. hefir verið tekin í fóstur af þeim hv. þm. Hafnf. og hv. þm. V.-Ísf. Ég tel því vel fyrir henni séð og mun því ekki fjölyrða um hana. En ég skal þá snúa mér að fyrri brtt., við 13. gr. Ég legg ákaflega mikið upp úr, að sem mest tengsli séu milli atvinnuveganna og stofnunarinnar. Eins og 13. gr. nú er orðuð á ráðh. að skipa 5 manna n., sem rannsóknarstofnunin á að ráðfæra sig við, þannig að deildarstjórarnir rétta nefndinni skýrslu um, hvað fyrirhugað sé að gera, en þurfa svo ekki að taka neitt tillit til þess, sem n. segir.

Allir starfsmenn þessarar stofnunar verða vitanlega vísindamenn, og þeir geta átt þau hugðarefni, sem þeir vilja vinna að, en ekki teljast nauðsynleg eins og á stendur. Ég geri því ráð fyrir, að n. haldi a. m. k. 4 fundi á ári, og séu þar teknar ákvarðanir um, hver aðalrannsóknarefni skuli taka til meðferðar á hverjum tíma. Ég tel, að þannig sé betur tryggt, að ætíð séu tekin til meðferðar þau viðfangsefni, sem atvinnuvegunum eru nauðsynlegust á hverjum tíma. Ennfremur er gert ráð fyrir, að n. ráði, á hvern hátt niðurstöður rannsóknanna skuli birtar almenningi.

Ég vil fá það tryggt, að gripið sé á kýlunum þar, sem þörfin er mest, en ekki sé verið að grúska í því sem liggur alveg fyrir utan atvinnuvegina — jafnvel þó vísindi geti talizt.

1499

Thor Thors: Því var lofað, að frv. þetta yrði ekki tekið til 3. umr. fyrr en allshn. hefði fjallað um frv. okkar hv. 8. landsk. Það má nú e. t. v. segja, að um það hafi verið fjallað á vissan hátt. Um málið var lítillega rabbað við 2. þm. Reykv. og svo var bókað, að n. hefði klofnað. (HV: Hvaða vitleysa er þetta? Þm. ætti þá að mæta). Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. ætti sjálfur að mæta. Ég hefi mætt oftar en hann, sem ekki mætti í morgun né heldur í gær. Mun hann þá hafa verið að spila „golf“.

Við 8. landsk. höfum leitazt við að kynna okkur sem bezt álit háskólaráðsins á þessum málum, og sent því frv. okkar til umsagnar. Nú hefir okkur borizt bréf frá því, sem prentað er á þskj. 230 og ég vil lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar svo:

Háskóli Íslands.

Háskólaráðið.

Reykjavík, 18. marz 1935.

Alþingismenn Thor Thors og Garðar Þorsteinsson.

Frumvarp um stofnun atvinnudeildar og rannsóknarstofnunar við Háskóla Íslands, sem þér í bréfi dags. 16. þ. m., hafið óskað umsagnar háskólaráðsins um, var í dag lagt fyrir fund í háskólaráðinu.

Svo hljóðandi ályktun var gerð af meira hluta háskólaráðs:

Meiri hluti háskólaráðs hefir þegar lýst yfir fylgi sínu við frv. skipulagsnefndar um rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna við Háskóla Íslands, og þar sem telja má víst, að frumvarp það verði samþykkt á núverandi Alþingi, vill háskólaráðið ekki taka afstöðu til frv. um stofnun atvinnudeildar og rannsóknarstofnunar við háskólann, enda þótt háskólaráðið hefði gjarnan viljað hafa frá öndverðu frekara samband milli háskólans og rannsóknarstofnunarinnar en frv. skipulagsnefndar gerir ráð fyrir.

Minni hluti háskólaráðs gerði svo fellda ályktun:

Þar sem meiri hluti háskólaráðsins hefir neitað að bera umrætt frumvarp undir deildir háskólans, þá lýsir minni hlutinn þegar þeirri skoðun sinni, að frv. til laga um stofnun atvinnudeildar og rannsóknarstofnunar við Háskóla Íslands sé í fullu samræmi við frumkröfur háskólans og mælir því eindregið með samþykkt þess.

Pétur Sigurðsson

f. h. rektors háskólans.

Þetta bréf sýnir glögglega hug háskólaráðsins; minni hl. er alveg samþykkur okkar frv., og meiri hl. er óánægður yfir, að ekki er nægilega náið samband við háskólann eftir frv. meiri hl. allshn.

Það er vitanlegt, þó meiri hl. háskólaráðsins hafi látið til leiðast að samþ. það frv., sem mun vera samið af skipulagsnefnd, þá vildi hann fremur frv. okkar 8. landsk. Einnig hefir málið verið rætt á almennum stúdentafundi, þar sem mættir voru allir kennarar, og prófessorar háskólans og flestir stúdentar, og voru allir sammála um, að frv. okkar um atvinnudeild ætti fram að ganga, að undanteknum þm. Hafnf. og þeim 3 prófessorum úr háskólaráðinu, sem búnir voru að ganga inn á frv. skipulagsnefndar. Á fundinum var samþ. í einu hljóði svofelld ályktun — með leyfi hæstv. forseta — .

„Almennur stúdentafundur, haldinn á Garði mánud. 18. marz 1935, skorar á háskólaráðið að nota rétt þann, er það hefir með bréfi til kennslumálaráðherra 4. marz 1933 áskilið sér til breytinga á frumvarpi til laga um rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna við Háskóla Íslands, á þann hátt, sem hér segir: Hin fyrirhugaða rannsóknarstofnun verði jafnframt regluleg kennsludeild í þessum fræðum við háskólann. Séu forstöðumenn hennar prófessorar, og fari um þá og aðra kennara eftir lögum nr. 24 1930, en kennsludeildin lúti háskólalögunum, að því er viðkemur rétti hennar til að útskrifa kandidata, enda verði nánari ákvæði um það sett með reglugerð. Vilji hinsvegar Alþingi ekki fallast á þessar breytingar, krefst fundurinn þess, að háskólaráðið hlutist til um, að þeim tekjum, sem háskólinn hefir af happdrættinu, verði varið til háskólabyggingar, en ekki til fyrirtækja, sem raunverulega yrðu háskólanum alveg óviðkomandi.“

Það ætti því ekki að þurfa að deila frekar um það hér í d., hver sé hugur háskólamanna til þeirra frv., sem hér liggja fyrir. En sá eini þm. úr stjórnarliðinu, hv. þm. Hafnf., sem fengizt hefir til að rökræða þetta mál, bar það fram sem höfuðrök, að háskólinn væri búinn að taka afstöðu með frv. meiri hl. allshn., og því þýddi ekki að ræða frv. okkar 8. landsk. En af því, sem ég nú hefi sagt, er það ljóst, að ef einhver úr liði stj. vildi fara að vilja háskólans, ber honum að samþ. frv. okkar 8. landsk. Þeir hv. þm. Hafnf. og hv. þm. V.-Ísf. flytja brtt. á þskj. 190, og ég verð að segja, að það gleður mig, að hv. þm. Hafnf. er kominn á þá skoðun, að starfsmenn rannsóknarstofnunarinnar megi stunda kennslu við háskólann, sem hann var alveg andvígur við 1. umr. nú fyrir nokkrum dögum. Deildum við þá allmikið um þetta atriði, hvort taka ætti upp kennslu við háskólann eða ekki. Nú virðist þó hv. þm. vilja stuðla að því, að þetta verði gert, en vill leggja það undir dóm rannsóknarstofnunarinnar og atvmrh., hvenær það skuli gert. Er af þessu ljóst, að hv. þm. er orðinn annarar skoðunar en hann var við 1. umr. En ég tel þetta ófullnægjandi og ekki heppilegt, að gefa atvmrh. sérstaka aðstöðu til þess að tefja fyrir því, að kennslan byrji. Þó tel ég 14. gr. betur orðaða með brtt. á þskj. 1.90 en eftir frv. skipulagsnefndar.

En úr því það virðist vaka fyrir flm., að kennsla hefjist, og tekið er fram í fyrirsögn frv. að stofnunin sé við Háskóla Íslands, teljum við, hv. 8. landsk. og ég, eðlilegast, að kennslan sé þegar hafin, og stofnunin sé sem ein deild háskólans, og um réttmæti slíkrar atvinnudeildar vík ég ekki í neinu frá því, sem ég hefi áður sagt. En ég mun sjálfsagt við þessa atkvgr. taka það næstbezta, ef það bezta fæst ekki.