06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Þar sem hæstv. ráðh. er að hamra á því, að þessi sæla yfirlýsing hafi verið gefin, vegna þess, að sjálfstæðismenn hafi slitið samvinnu við stj.flokkana í utanríkismálanefnd, þá verð ég að segja, að mér finnst það broslegt, þegar það er borið saman við það, sem stj.blöðin segja um þetta. Hæstv. ráðh. segir, að yfirlýsingin hafi verið gefin vegna þess, að sjálfstæðismenn hafi slitið samvinnu við stj.flokkana í utanríkismálanefnd, en annað stj.blaðið segir, að sjálfstæðismenn hafi slitið samvinnu vegna þess, að ráðh. hafi gefið yfirlýsinguna. Hvorttveggja er auðvitað jafnmikil vitleysa.

En tilefnið til þess að ég stóð upp er það, að mér finnst, að það hafi ekki nægilega verið bent á. í hvaða vandræði hæstv. ráðh. er kominn, þar sem hann nú er farinn að rífa niður á næsta augnabliki það, sem hann byggir upp á hinu. Hann segir og meira að segja margendurtekur það, að það séu tilhæfulaus ósannindi, að það hafi verið ágreiningur milli stj.flokkanna og sjálfstæðismanna um 6% gjaldið í markaðs- og verðjöfnunarsjóð, en á næsta augnabliki segir hann, að stj. hafi farið fram á, að það væri 7%, en sjálfstæðismenn hafi komið með till. um, að það væri 5%. Hann segir þarna sjálfur, að það hafi verið ágreiningur um þetta mál, en segir svo aftur rétt á eftir, að það séu tilhæfulaus ósannindi, að það hafi verið ágreiningur um það. Það sjá nú allir, hvað mikið ósamræmi er í þessu hjá hæstv. ráðh. - En ágreiningurinn í þessu máli var miklu meiri en kom hér fram í þingsölunum. Og það var ekkert óeðlilegt, þó sjálfstæðismenn yrðu að falla frá kröfum sínum að einhverju leyti, því það er svo um flest vandamál, að menn reyna að mætast á miðri leið, þegar skoðanir eru skiptar. Sjálfstæðismenn voru óánægðir með gjaldið, bæði vegna þess, að það kom niður á einni atvinnustétt, og svo þótti þeim það of hátt.

En annars vil ég segja það um hin margendurteknu orð hæstv. ráðh. um, að mér færist ekki að tala um drengskap, að hann má sækja þau svo langt niður fyrir þind sem hann vill, en hann fær engan til þess að trúa því, að ég hafi sýnt ódrengskap í málaflutningi hér á Alþ. það vita flestir, að ég hefi hvorki sent ódrengskap né undirhyggju í málflutningi mínum. Það er satt, að ég hefi sótt sum nál. nokkuð fast, en engin undirhyggja hefir þar fylgt af minni hálfu. En hitt hefi ég sýnt fram á, að hæstv. ráðh. hefir gert sig sekan um þetta.

En viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. var að segja um samband ísl. fiskframleiðenda, þá vil ég spyrja að því, hvort það sé sómasamlegt fyrir mann, sem getur komið með gögn, að hirða ekki um að koma með þau, en slá heldur fram órökstuddum staðhæfingum. Það er svo um gerðir Sambands ísl. fiskframleiðenda, að það er flest bókað, sem fer þar fram á fundum, og hefði ég komið með bókun fundarins, hefði ég vitað, að þetta yrði dregið inn í umr. En hæstv. ráðh. gat gert það, og vil ég skora á hann að gera það. Ég geri ekki ráð fyrir, að menn vilji yfirleitt halda því fram, að því máli hafi verið vísað frá, sem ákveðið hefir verið um að fá ákveðnum mönnum til afgreiðslu. Ég get ekki búizt við því, að nokkrum heilvita manni detti slíkt í hug.

Ég skal svo ekki tala meira um þetta, en það er misskilningur hjá hæstv. ráðh að halda því fram, að þessir óvöldu þm., sem hann er að tala um, hafi svo lítið að segja. Ég vil beina athygli hæstv. ráðh. að því, að þar sem þessir óvöldu þm. eru svo margir, að þeir eru nærri helmingur þingsins, þá er ólíklegt, að hægt sé til lengdar að taka ekkert tillit til þeirra, þar sem líka á bak við þá er sterkur vilji þjóðarinnar.