02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

115. mál, útflutningur vikurs

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Þetta frv. er náskylt frv., sem hefir verið til umr. í þessari hv. d. Að ég greiddi atkv. móti því, að þessu máli væri hraðað svona mikið, var vegna þess, að Ég tel, að svipað eigi að ganga yfir þessi tvö mál, en mér virtist svo sem hv. d. vildi ekki flýta fyrir því máli, sem var til umr. hér í d. í gær. Hv. 4. landsk. mælti þá móti því frv., og ef ég ætti þá ræðu uppskrifaða, þá myndi ég halda hana núna. Það er reynt að greiða svo fyrir þessu máli, að það er ekki einusinni búið að útbýta skjölunum, þegar það er tekið fyrir. En hitt málið var búið að liggja í 12 daga hjá n., og þó var það ekki nógu vel rannsakað.

Nú væri gaman að fá allar þær upplýsingar um þessa vöru, sem hv. 4. landsk. talaði um, að vantaði viðvíkjandi málinu, sem var á dagskrá í gær. Það væri gaman að fá upplýsingar um, hvað mikið muni vera hægt að selja af þessari vöru, hver hafi fundið upp á því að hagnýta hana, og hvort ekki verði að áskilja uppfinningamanninum rétt til þess að hagnýta hana. Ef þetta er ekki gert, þá leyfi ég mér að staðhæfa, að hér sé á ferðinni sama réttlæti og nú er yfirleitt látið gilda, en það er að mismuna alveg eftir því, hver á í hlut, og eftir því, hvort þeim býður svo við að horfa.

Ég vil fullyrða, að hér er um skyld mál að raða. Það hefir komið í ljós, að hér á landi finnast bergtegundir, sem hagnýta má sem byggingarefni, og má ef til vill gera þær að söluvöru á erlendum markaði. Menn eru sammála um aðferð þá, sem stungið hefir verið upp á í þessu skyni, en hún er í báðum tilfellum sú, að veita mönnum þeim, sem vilja brjótast í því að ryðja þessari vöru braut á erlendum markaði, þau fríðindi, sem þeir telja sér nauðsynlegt að fá til þess að geta lagt í kostnað þann, sem af því leiðir. En ef ekki þykir annað sáluhjálplegt en að ríkið græði á þessu, þá getur það auðvitað síðar tekið þetta í sínar hendur. Það er ómögulegt að sjá muninn á þessum tveimur tilfellum, enda er hann enginn. Það eru sjálfsagt í báðum þessum tilfellum margir, sem eiga þessa svokölluðu uppgötvun, og eins og ég minntist á í gær, þegar ég talaði um hitt málið, þá hefi ég heyrt marga eigna sér þá uppgötvun að nota hrafntinnu til múrhúðunar. En húsameistari ríkisins er mikill vinur hv. þm. S.-Þ., en húsameistari vill eigna sér þessa uppgötvun, og af því að hv. þm. S.-Þ. er svo viðkvæmur gagnvart húsameistara, þá hefir hv. 4. landsk. ekki talið sig mega sitja hjá í þessu máli og lýst því yfir, að hann geti ekki afgr. málið fyrr en upplýsingar eru fengnar um allt mögulegt viðvíkjandi málinu. En í því tilfelli, sem hér um ræðir, er þessu ekki til að dreifa, og því á að hraða þessu máli eins mikið og hægt er.

Ég sé, að hv. þm. S.-Þ. er kominn í d. og býst ég við, að hann leggi lið sitt til þess, að þessu máli verði ekki flaustrað af, og að beðið verði eftir því, að nauðsynleg rannsókn hafi farið fram, áður en það verður tekið til meðferðar aftur.

Ég sé, að hv. 4. landsk. óskar eftir því að taka til máls, og býst ég við, að afstaða hans frá í gær hljóti að vera óbreytt.

Ég vænti þess svo, að bæði þessi mál verði afgr. í þessari hv. d., því mér er ómögulegt að koma auga á mismuninn á þeim.