05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

119. mál, kjötmat o.fl.

Þorsteinn Briem:

Það er erfitt að eiga orðastað við hæstv. forsrh., því hann ruglar saman nöfnum á þeim mönnum, sem vinna það starf, sem hér um ræðir. Hann talaði um undirmatsmenn, og stundum var ekki hægt að átta sig á því, hvort hann átti við hina virkilegu undirmatsmenn eða aðstoðarmennina, en það var sýnilegt, að hann átti stundum við aðstoðarmenn kjötmatsformanns, þegar hann talaði um undirmatsmenn. Hann átti t. d. við aðstoðarmenn kjötmatsmanns, þegar hann sagði, að undirmatsmennirnir kæmust ekki til þess að fara yfir þau svæði, sem þeir hefðu oft átt að fara yfir. En á þessu tvennu, undirmatsmönnum og aðstoðarmönnum kjötmatsmanns er gerður glöggur greinarmunur í 1. frá 1933. Ef það er fundið að núv. l., að aðstoðarmenn kjötmatsformanns komist ekki nægilega oft yfir þau svæði, sem þeir eiga að fara yfir, þá er lítið um bætt með þeirri breyt. að láta 3 menn vinna það starf, sem nú er ætlað 4 mönnum. Ég get ekki séð, að 3 menn hafi betra tækifæri til þess að afkasta meiri vinnu heldur en 4 menn. Ég hefi áður bent á, að það er engin nauðsyn, að kjötmatsmaður komist yfir alla þá staði, sem fé er slátrað á, því ef hann getur gefið aðstoðarmönnum sínum nægilegar leiðbeiningar, þá getur það komið að fullu gagni. Ég held mig því við það, sem ég hefi áður sagt, að ég sé ekki, að það sé stigið spor áfram með þessari lagabreyt., heldur aftur á bak.