19.10.1935
Neðri deild: 52. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

111. mál, gelding húsdýra

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vona, að það gangi greiðlegar með þetta mál en það sem var verði að ræða um (hafnarl. fyrir Siglufjörð). Mál þetta var tekið út af dagskrá á síðasta fundi sökum þess, að við það höfðu komið fram brtt. frá einum nm., sem n. eða aðrir hv. þm. höfðu ekki haft tækifæri til að athuga. Nú hefir n. öll orðið ásátt um brtt. á þskj. 401, og get ég því lýst yfir f. h. hv. 2. þm. N.-M., að hann tekur brtt. sínar þar með aftur.

Aðalbreyt. frá frv. er sú, að við leggjum til, að það megi jöfnum höndum svæfa og staðdeyfa. Okkur þótti rétt, af því þeim er heimilað samkv. frv. að fara með staðdeyfingarlyf, að leyfa þeim að nota hina aðferðina líka. Það er talsvert vandasamt að fara með svæfingarlyf, og verða geldingamenn því, að hafa vottorð um, að þá skorti eigi þekkingu og leikni til þess.

Þá er það annað atriði í brtt. n. Samkv. 2. gr. frv. eiga sýslunefndir að gefa geldingamönnum skipunarbréf, er veiti þeim aðeins rétt til þess að starfa innan þeirrar sýslu, sem þeir eru búsettir í. N. þótti rétt að taka það fram, að sýslunefndir hefðu ekki rétt til að takmarka leyfi skipaðra dýralækna í þessu efni í umdæmum þeirra, og eru þeir því undanskildir.

Þá er það brtt. við 3. gr. Í þeirri gr. er það tekið fram, að geldingamenn fái þóknun fyrir verk sitt samkv. gjaldskrá, er sýslunefndir setja, hver fyrir sína sýslu. Hinsvegar þótti rétt að geta þess, að sú gjaldskrá næði ekki til dýralækna, því að sýslunefndir geta vitanlega engin áhrif haft á gjaldtaxta þeirra. Þess vegna er undantekningarákvæðinu bætt inn í 3. gr. samkv. brtt. n.

Við 4. gr. frv. eru nokkrar smábreyt., sem stafa aðallega af þeirri breyt., sem gerð er á 1. gr. — Auk þess leggur n. til, að fellt verði aftan af síðari málsgr. 4. gr. ákvæði um, að landbrh. sé skylt að gæta þess, að nægar birgðir séu til af deyfingarlyfjum í landinu. Það er hlutverk lyfjabúðanna, og þótti n. ekki ástæða til að leggja slíka kvöð á landbrh. Hinsvegar leggur n. til, að við greinina bætist ákvæði um, að landbrh. hlutist til um, að dýralæknar landsins gefi mönnum kost á að læra geldingar og meðferð deyfingarlyfja.

Þá er það síðasta brtt. við 6. gr., um að framkvæmd þessara laga megi fresta til 1. maí 1937, þar sem skortur kann að vera á hæfum geldingamönnum í einstökum héruðum til að byrja með. Það er sem sé vitanlegt, að í sumum sýslum eru engir menn, sem færir eru, um að fullnægja þeim kröfum, er gerðar eru með þessum lögum. Þykir því rétt að fresta megi framkvæmd þeirra þangað til hæfir menn geta fengizt til þess að framfylgja þeim. — Þar sem fullt samkomulag hefir orðið í landbn. um þessar brtt., þá vænti ég, að hv. þd. greiði svo fyrir málinu, að því verði lokið á þessum fundi.