18.10.1935
Efri deild: 47. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

101. mál, síldar- og ufsaveiði

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Málið er ekki sérstaklega umfangsmikið, svo að ég get hagað orðum mínum eftir því. Frsm. meiri hl. hefir skýrt frá því, að samþ. voru á Alþ. 1934 lög, sem fóru í þá átt að breyta tilsk. frá 1872, svo að veiðimönnum yrði heimilt að veiða í netlögum annars manns. Frv. kom aðallega fram vegna þess, að síldveiðimenn kvörtuðu undan því, að hægt væri að bægja þeim frá veiði. Það lítur nú út fyrir, að vansmíði hafi verið á I. frá 1934, úr því hv. 2. þm. S.-M. sér ástæðu til að gera breyt. á þeim, sem gengur á þann veg, að réttur landeiganda sé meir viðurkenndur. En eins og ég segi í nál. minni hl. á þskj. 395, þá er hér verið að leggja skatt á menn, sem veiða síld í netlögum. Ég hefi heyrt minnzt á, að þetta geti borið til, en þá er það oft svo fjarri mannabyggðum, að erfitt er að kontrolera, hver veiðir, — og hvernig á að innheimta prósenturnar, veit ég þá ekki. Ég held, að það sé ranglátt að leggja svona skatt á innlenda síldveiðimenn, þó að þeir taki síld svona nálægt landi. Áður en l. voru staðfest á síðasta þingi, er mér ekki kunnugt, að landeigendur hafi notað sér þetta mikið, en þó mun það hafa kostað óþægindi í nokkrum tilfellum, að menn gátu búizt við því, að það yrði tekið af þeim gjald. Fiskifél. beitti sér fyrir því að fá hin úreltu ákvæði tilsk. frá 1872 úr lögum. Nú á að fara að lögfesta þau á ný, og þar get ég ekki verið með. Þetta er ástæðan til, að ég get ekki fylgt frv. Ég get ekki heldur séð, að þetta gæti borið árangur í raun og veru, þar sem í mörgum tilfellum yrði ómögulegt að staðfesta, hvað miklar þessar prósentur yrðu. Ég leyfi mér því að leggja til, að frv. verði fellt, og fjölyrði svo ekki meira hér um.