09.11.1935
Neðri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

101. mál, síldar- og ufsaveiði

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Eins og hv. þd. er kunnugt, hefir n. ekki orðið sammála um þetta frv. Þetta er nú ekki nýtt mál fyrir d., því í fyrra var einmitt borið fram það frv. og samþ., sem nú er farið fram á að fella aftur úr gildi.

Ég vil leyfa mér að minnast lítils háttar á upptök þessa máls. — Eins og kunnugt er, þá eru í tilsk. frá 1872 settar reglur um landshlut til handa mönnum, sem eiga land, þar sem fara fram veiðar með nót, þ. e. a. s., það eru nætur, sem menn veiða í síld og ufsa og fleiri fisktegundir og eru festar við land, og þeir, sem veiðina stunda, hljóta að hafa umgang um landið og afnot af því. Nú er landeiganda ákveðin 4% þóknun í landshlut. Þegar farið var að veiða hér við land með hringnót, sem ekki hefir samband við land, heldur við skip, kom upp um það þræta, hvort greiða ætti landshlut af þessari veiði, ef hún væri tekin í netalögum annars manns, og það mun vera dómur fyrir því, að það eigi að greiða þetta 4% gjald til landeiganda, enda þótt veiðarfærið hafi ekkert samband við land né sé lagt við legufæri í netalögum. Í fyrra var borið fram frv. um það, að þessi veiði skyldi vera skattfrjáls, og var það rökstutt af flm. með því fyrst og fremst, að í upphafi hafi gjaldið verið ákveðið sem endurgjald fyrir það, að hafa umgang um landið og taka aflann í land; og í öðru lagi með því, að það væri svo að segja ómögulegt að ákveða þennan afla, sökum þess, að menn kynnu að afla nokkurn hluta af veiði sinni undan landi eins manns og nokkurn hluta undan landi annars manns, og því yrði erfitt að innheimta þetta gjald. Það er því næstum óhugsandi, að hægt sé að framkvæma þessi l., sérstaklega inni á þröngum fjörðum. Þar getur komið fyrir, að hringnót nái inn fyrir mörk netalaga á meðan kastað er, en verði svo dregin út fyrir þessi netlög. Einnig getur komið fyrir inni á þröngum fjörðum, meðan menn eru að króa þannig veiðina með hringnót, að skip, sem ekki liggur við legufæri, geti rekið inn fyrir mörk netlaga og skipstjóri neyðzt til þess að leggja skipinu til þess að það reki ekki á land. Enn getur komið fyrir, og mun eflaust oft koma fyrir, að skip reki yfir í netlög annars manns, annaðhvort þvert yfir fjörð eða með strönd. Og þannig verður það lítt framkvæmanlegt að innheimta þennan skatt, og ég verð að segja, að mér finnst það ákaflega vafasamt, að það hafi verið tilætlun tilsk. frá 1872, að menn gyldu skatt af veiðum í netlögum, ef ekkert samband væri haft við land.

Meiri hl. n. hefir af þessum ástæðum, sem ég hefi nú greint, og fleirum mælt á móti því, að frv. verði samþ. Og ég vil bata því við, að meiri hl. n. telur það einnig óviðeigandi, að þingið geri sér þá minnkun að vera að setja l. um svona þrætuefni og brjóta þau alveg niður á næsta ári, að óbreyttri skipan þingsins.

Ég vil náttúrlega ekki fara að blanda þeim heiðursmanni, sem flytur þetta frv. núna, inn í þessar umr. Hann hefir eflaust á reiðum höndum ástæður fyrir sínu máli. En hann mælti af mikilli speki fyrir frv. í fyrra, sem hann nú með nýju frv. leggur til, að fellt verði úr gildi. Þessi nýi skilningsandi hefir nú komið yfir hann á þessum fáu mánuðum, en ég fyrir mitt leyti tel, að ég gæti ekki stutt mál okkar í meiri hl. n. öllu betur en með því að lesa upp hans eigin rök fyrir málinu í fyrra, en þar sem þessi hv. þm. á ekki sæti hér í d. og ég hefi ekki þingtíðindin við hendina ætla ég ekki að gera hans skoðun á þessu máli í fyrra meira að umtalsefni.

Ég þykist svo ekki þurfa að rökstyðja mál okkar í meiri hl. n. meira. Mér þykir ósennilegt, að menn hafi haft þau nýju kynni af ufsanum og síldinni yfir þessa fáu mánuði, að þessi ágætu veiðidýr hafi snúið hugum manna og sannfæringu síðan í fyrra.