10.10.1935
Sameinað þing: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

Minning látinna manna

forseti (JBald):

Áður en tekið verður til þingstarfa af nýju vil ég minnast fjögurra látinna manna, sem allir hafa átt sæti á Alþingi.

Skal ég þá fyrst minnast Hannesar þorsteinssonar þjóðskjalavarðar, sem andaðist 10. apríl þ. á. Hann var fæddur 30. apríl 1860 á Brú í Biskupstungum, sonur Þorsteins Narfasonar, bónda þar, og konu hans, Sigríðar Þorsteinsdóttur, bónda á Drumboddsstöðum Tómassonar. Hann útskrifaðist úr latínuskólanum í Reykjavík 1886 og úr prestaskólanum 2 árum síðar. Næstu árin fékkst hann við kennslu í Reykjavík og ýmisleg störf og rannsóknir í ættvísi, en á árinu 1891 keypti hann blaðið Þjóðólf, og tók við ritstjórn hans á næstu áramótum. Árið 1909 seldi hann blaðið og hafði þá verið ritstjóri þess í 18 ár. Árið 1911 varð hann aðstoðarmaður við landsskjalasafnið, en þjóðskjalavörður frá 1924 til dauðadags. Á Alþingi átti hann sæti í árunum 1901—1911 sem fulltrúi Árnesinga, og var forseti neðri deildar á þingunum 1909 og 1911.

Hannes Þorsteinsson hafði mikil og merkileg afskipti af landsmálum, bæði sem ritstjóri og þingmaður, og lét þar ýms mikilvæg mál til sín taka, einkum stjórnarskrármálið, innlenda háskólastofnun o. fl., og var áhrifamaður á þingi og fylginn sér. En það, sem lengst mun þó halda minningu hans á lofti, eru störf hans í sögulegum efnum, einkum mannfræði og ættvísi. Þar liggja eftir hann ýms stórvirki, svo sem útgáfa Sýslumannaæfa. Íslenzkra annála frá síðari öldum, og Æfisögur lærðra manna íslenzkra, sem hann hafði unnið að í fjöldamörg ár, en handrit að því verki, sem enn er óprentað, er nú eign ríkisins, að honum látnum. Fyrir þessi og önnur störf hans í þarfir íslenzkra fræða kjöri heimspekideild háskólans hann heiðursdoktor á árinu 1925, og lét þess getið í formála þeim, er fylgdi, að í ættvísi og mannfræði hafi enginn Íslendinga, hvorki fyrr né síðar, lagt meira fram í rannsóknum en hann. Hann var annar aðalstofnandi Sögufélagsins, í stjórn þess frá upphafi og forseti þess síðasta áratuginn, og í stjórn Bókmenntafélagsins og í fulltrúaráði Fornleifafélagsins hafði hann verið í mörg ár.

Það mun óhætt að segja, að enginn Íslendingur hafi verið eins fróður um ættir manna hér á öllum öldum og Hannes Þorsteinsson, og svo var minni hans frábært á þau efni, að með ólíkindum þótti. - Hannes Þorsteinsson var skapfestumaður mikill, vinur vina sinna og tryggur í lund, en fastur fyrir og allharðskeytinn, er hann átti í deilum eða þá er á hann var leitað.

Með Hannesi Þorsteinssyni er til moldar genginn einn merkasti fræðimaður landsins, og mun lengi verða ausið af þeim brunnum, sem hann hefir upp grafið með störfum sínum og rannsóknum.

Þá andaðist 14. júní síðastl. Jóhannes Ólafsson hreppstjóri á Þingeyri í Dýrafirði. Hann var fæddur 22. júlí 1859 í Haukadal í Dýrafirði, sonur Ólafs Jónssonar, bónda þar, og konu hans, Ingibjargar Jónsdóttur, bónda í Stapadal Bjarnasonar. Hann nam trésmíði á árunum 1880—1882 og stundaði þá iðn ásamt ýmsum öðrum störfum upp frá því, fyrst á Ísafirði, 1882—1883, í Haukadal í Dýrafirði 1883—1887, og á Þingeyri frá 1887.

Má af því marka, hve mikils trausts Jóhannes Ólafsson naut í sveit sinni og héraði, að á hann hlóðust flest þau trúnaðarstörf í almenningsþarfir, sem komið geta til greina í sveitum landsins, og gegndi hann þeim öllum um langt skeið.

Hann var hreppstjóri, hreppsnefndaroddviti. stjórnarmaður og gjaldkeri sparisjóðs, póstafgreiðslumaður, sáttasemjari og formaður skólanefndar, og fulltrúi Vestur-Ísfirðinga á Alþingi var hann á árunum 1903—1907. Segja svo kunnugir menn, að yfirleitt hafi hann átt mestan þátt í framfara- og menningarmálum Dýrfirðinga um langa hríð. Hann var hinn vandaðasti maður, drengur hinn bezti, glaðvær og vinsæll, og leituðu sveitungar hjá honum trausts og halds í flestum vandamálum.

Þá andaðist 31. júlí Tryggvi Þórhallsson bankastjóri og fyrrv. forsætisráðherra. Hann var fæddur 9. febrúar 1889 í Reykjavík, sonur Þórhalls Bjarnasonar biskups og konu hans Valgerðar Jónsdóttur, bónda Halldórssonar á Bjarnastöðum í Bárðardal. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík árið 1908 og úr guðfræðideild Háskóla Íslands 1912. Ári síðar voru honum veitt Hestþing í Borgarfirði, og gegndi hann því embætti til 1917. Þá gerðist hann ritstjóri Tímans, og hafði það starf með höndum til 1927, er hann var skipaður forsætis- og atvinnumálaráðherra. Þeim störfum gegndi hann í nálega í ár, eða til vorsins 1932, en þá gerðist hann aðalbankastjóri í Búnaðarbanka Íslands, og því starfi gegndi hann til dauðadags. Við stofnun kreppulánasjóðs tók hann jafnframt bankastjórastörfunum við stjórnarstörfum þar. Síðasta áratuginn hafði hann jafnframt öðrum störfum á hendi formennsku í stjórn Búnaðarfélags Íslands. Auk þessara starfa voru honum falin ýms önnur trúnaðarstörf í þarfir þjóðfélagsins. Átti hann meðal annars sæti í kæliskipsnefnd 1924, í gengisnefnd og Grænlandsnefnd. Þá var hann og í milliþinganefnd í stjórnarskrár- og kjördæmamálinu 1931—1932. Á Alþingi átti hann sæti sem fulltrúi Strandamanna á árunum 1924 —1933.

Tryggvi Þórhallsson stendur svo nærri atburðum síðustu tíma, að ég þarf ekki að rifja upp í löngu máli, hvað hann hefir verið landi og þjóð.

Öllum þingheimi er kunnugt, að hann var allan þann tíma, er hann átti sæti á þingi, og raunar fyrr, einn af mestu áhrifamönnum um stjórnmál landsins. Mönnum er og í fersku minni, hve málsnjall hann var og skörulegur, bæði á Alþingi og ekki sízt á fjölmennum mannfundum, hve aðsópsmikill hann var og skæður í málasennum, en þó lipur og ljúfmannlegur í samvinnu og allri framkomu, enda var drengskap hans og mannkostum við brugðið jafnt utanflokks sem innan.

Það leiðir af sjálfu sér, að Tryggvi Þórhallsson hafði forustu í fjöldamörgum stórmálum, en hjartfólgnust allra mála voru honum þó málefni landbúnaðarins. Hann hafði bjargfasta trú á frjómagni íslenzkrar moldar og lagði sig allan fram til þess að tryggja framtíð íslenzkrar bændastéttar. Mun engum einum manni hafa orðið eins ágengt og honum í þeim efnum, og mun lengi gæta áhrifa hans á löggjöf vora í þeim málum.

Þó að Tryggva Þórhallssonar muni lengst af minnzt sem stjórnmálamanns, þá er hitt samt kunnugt, að hann hafði fleiri áhugamál. Hann var mjög vel að sér í fornbókmenntum vorum og vann í tómstundum að sögulegum rannsóknum, einkum í kirkjusögu landsins, og skrifaði nokkrar ritgerðir um þau hugðarmál sín. En í þeim íhlaupaverkum gat hann að vonum ekki notið sín að fullu sakir annríkis á öðrum sviðum.

Með Tryggva Þórhallssyni er í valinn hniginn á bezta aldri einn þeirra manna, er hæst bar í stjórnmálum landsins á þessari öld.

Loks er að minnast Jóns Sigurðssonar hreppstjóra á Haukagili í Hvítársíðu, sem andaðist 20. f. m. Hann var fæddur 13. desember 1871 í Hvammi í Hvítársíðu, sonur Sigurður Jónssonar, síðar bónda í Haukagili, og Þorgerðar Jónsdóttur, bónda á Svarfhóli í Stafholtstungum Halldórssonar. Hann tók við búi á Haukagili af föður sínum árið 1904 og bjó þar til dauðadags.

Jón Sigurðsson gerðist snemma höfðingi sveitar sinnar og var falin forusta í flestum þeim málum, er hana varðaði. Hreppsstjóri hafði lengi verið í nærfellt 30 ár. Sýslunefndarmaður lengi, hreppsnefndarmaður og sóknarnefndarformaður, sáttasemjari o. fl. Hann átti sæti á Alþingi sem fulltrúi Mýramanna á þingunum 1909 og 1911.

Það hafa mér sagt kunnugir menn, að Jón á Haukagili hafi verið gáfaður maður, óvenjuvel máli farinn, drengur góður og vinsæll í héraði, gleðimaður og gestrisinn.

Vil ég biðja háttv. þingmenn að votta minningu þessara látnu manna virðingu sína með því að risa úr sætum sínum.

[Allir þm. stóðu upp.]