03.04.1935
Efri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hygg, að það sé þarflaust að hafa mörg orð um þetta frv. — Eins og kunnugt er, þá er á Ísafirði fasteignagjald af byggðum lóðum 5 aurar á al., en 2 aurar af óbyggðum. Hinsvegar hafa flestir kaupstaðir fengið heimild til að leggja gjöld á lóðir, og mörg þeirra hafa stórt svigrúm til að leggja þau á, allt upp í 2%. Hér er nú ekki farið fram á meira en að gjald af húsum sé 0,4—1% og af loðum 0,1—1%. Ég sé ekki annað en að sjálfsagt sé að veita bæjarstj. heimild til að leggja á þennan skatt, sem ég tel óeðlilega lágan, en hefi þó ekki borið fram brtt. um það.

Að því er snertir einkarétt á uppskipun, þá sé ég ekki neitt við það að athuga, nema síður sé. Ég tel sjálfsagt, að bæjarstj. muni ekki ganga lengra í því að nota sér þessa heimild heldur en fært þykir vegna skoðana og álits bæjarbúa, hvað gjöldin megi vera há. Samanburð er líka hægt að gera við aðrar bryggjur í bænum, því að þetta einkaleyfi gildir aðeins fyrir bæjarbryggjurnar.

Ég geri ráð fyrir, að þingi verði frestað næstu daga, en Ísfirðingum er mesta nauðsyn á, að þetta mál verði nú samþ. Síðasta ár var tekjuhalli þar að ég held 20000 kr., og er því mesta nauðsyn fyrir bæinn, til að fjárhagur hans fái staðizt á þessu ári, að fá rétt til að taka viðbótargjöld, og það er tilgangurinn með þessu frv. Ég vil því mjög mælast til þess, að frv. verði hraðað sem allra mest og verði ekki látið fara til n., heldur beint til 2. umr.