21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég var einn í minni hl. af þeim mönnum, sem sóttu fund í fjhn., þegar þetta mál var þar til umr. Ég er því andvígur, að þetta frv. nái samþykki, og get ég að mestu leyti látið mér nægja að vísa til þess, sem ég sagði um mjög svipað frv., sem fram kom á síðasta þingi, en það var frv. til l. um breyt. á l. um bæjarstj. Akureyrar, og fór það fram á mjög svipaðar kröfur og frv. það, sem hér liggur fyrir.

Þó vil ég drepa á það, að mér finnst hvorttveggja í senn, að þessi leið til skattaöflunar fyrir bæjarfélögin sé óréttlát, og í annan stað, að það sé óeðlilegt, að einstök bæjarfélög séu tekin út úr og þeim veitt sérréttindi fram yfir önnur. Ég tel því ekki um annað að ræða en að reynt verði að fá löggjöf um heildaraukningu á tekjum bæjarfélaganna, eða láta nokkurn veginn eitt yfir öll bæjarfélögin ganga hvað þetta snertir. Mér er líka kunnugt um, að þetta álag á hafnargjöld Vestmannaeyja, sem gilt hefir undanfarið á annað ár, hefir mælzt mjög misjafnlega fyrir þar á staðnum. Sökum þess að hafnargjöldin í Vestmannaeyjum eru yfirleitt talsvert há, eru verulegar álögur ofan á slík gjöld mjög tilfinnanleg fyrir allan almenning, þegar um nauðsynjavörur er að ræða. Enda hefir mér skilizt á upplýsingum, sem fram hafa komið frá mönnum í Vestmannaeyjum um þetta atriði, að þessi hækkuðu hafnargjöld hefðu valdið mjög verulegri hækkun á verði einstakra neysluvara í Vestmannaeyjum. Það er óheppileg leið til tekjuöflunar fyrir bæjarfélögin, ef það verður til þess að hækka verð á nauðsynjavörum alþýðufólks að verulegu leyti.

Það má vel vera, að þau bæjarfélög, sem ekki hafa enn farið fram á að fá þesskonar löggjöf, sem hér er um að ræða, muni gera það seinna, ef afgr. verður heimild fyrir bæjarfélögin Vestmannaeyjar, Akureyri og Siglufjörð, og vel gæti þannig farið, að Reykjavík t. d. færi fram á að fá samskonar rétt eins og Vestmannaeyjar, en það yrði til þess, að lagður yrði skattur á meginhlutann af þeim vörum, sem til landsins flytjast og úr landinu eru fluttar, því að það er kunnugra en frá þurfi að segja, að aðalhluti allrar aðfluttrar vöru hér á landi fer í gegnum Reykjavíkurhöfn. Ég álít því, að við séum að fara inn á allhála braut með þessari hækkun á vörugjaldi hafnanna í bæjunum og því beri að athuga þetta mjög vel, áður en hv. Alþ. heldur lengra út á þessa óheillavænlegu braut. — Ég legg því til, að þetta frv. verði fellt.