20.11.1935
Efri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónason) [óyfirl.]:

Þetta frv. mun hafa verið afgr. til 3. umr. á þeim eina fundi, sem ég hefi ekki verið á. Ég hefi því ekki þurft að nota framsögumannsrétt minn til að mæla með frv. sem frsm. meiri hl. n. En nú hafa komið fram mótmæli gegn frv. frá hv. minni hl. n., þar sem hann ber það fram sem eina af ástæðunum gegn því, að alþingi hafi borizt skrifleg mótmæli undirrituð af 240 kjósendum. — Þau eru annars ákaflega einkennilega til komin þessi mótmæli. Þetta hlaut engan byr að ráði á fjölmennum fundi, sem haldinn var í Vestmannaeyjum, þar sem rætt var um ýms þingmál, og þá sérstaklega áhugamál Vestmannaeyja. Á þessum fundi var engum andmælum hreyft gegn þessu frv. Það var fyrst eftir þennan fund, að gengið var með þetta skjal á milli manna, og það var auðvitað í þessu tilfelli, eins og alltaf er, að það eru einhverjir, sem eru á móti öllum skattaálögum, af því að þeir halda, að þeir komist betur út af því á einhvern annan hátt. Eins og grg. ber með sér, þá er frv. borið fram eftir ósk bæjarstj. Vestmannaeyjakaupstaðar, og ég hygg, að sú ósk ætti að vera eins mikils metin eins og þó að farið sé að safna svo og svo miklu af undirskriftum. Annars þarf ég ekki að endurtaka það, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði um þetta mál. Það stendur hér mjög sérstaklega á, þar sem þeir geta lagt á gjöld án þess að þau komi niður á nokkrum öðrum en íbúum þess staðar. Vestmannaeyjar hafa þarna algerða sérstöðu, e. t. v. að undanteknum Siglufirði. — Í sambandi við þau andmæli hv. 4. landsk., að nú liggi fyrir áskorun um að koma á einhverri slíkri löggjöf, vil ég segja, að fullgilt svar við því er sérstaða þessa bæjarfélags og að þetta fyrirkomulag hefir verið notað undanfarið. Það er vafalaust, að gert hefir verið ráð fyrir því, að þetta fengist framlengt, úr því það nú einusinni hefir verið samþ. Og það er víst, að þetta bæjarfélag hefir byggt á því, að þetta gjald fengi að halda áfram, og í frv. eins og það nú er orðið er aðeins farið fram á frumlengingu til ársloka 1936, svo að það er frjálst og óbundið að láta Vestmannaeyjar lúta þeim almennu lögum, sem kynnu að verða sett um þetta efni. Ég vil því mælast til þess við forseta, að hann fresti ekki þessu máli, því að það er fullkomlega upplýst. Og ég vil beina því til hv. d., að hún afgr. þetta mál, því að það er gersamlega því óviðkomandi, hvort síðar kynni að verða sett einhver löggjöf um þetta efni.