04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Guðbrandur Ísberg:

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frv., vegna þess að hv. þm. A.-Húnv. hefir gert grein fyrir afstöðu okkar sjálfstæðismanna í landbn., en þó vil ég bæta nokkrum orðum við hans ræðu. Einkum vil ég undirstrika það, sem hann sagði og hv. frsm. benti líka á, að þetta frv. er samkomulagslausn í jarðeignamálinu. Við sjálfstæðismenn vorum í minni hl. í landbn. og gátum því ekki ráðið, í hvaða formi það var afgr.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið upp úr 3 frv., sem flutt voru á fyrrihluta þessa þings, og var frv. okkar sjálfstæðismanna um ættaróðal og óðalsrétt þeirra langveigamest, enda tekin úr því öll aðaluppistaða þessa nýja frv. Heiti frv. er nú frv. um erfðaábúð og óðalsrétt, og er þar tekin fyrst upp erfðaábúðin, eins og hún sé nú aðalatriðið, en óðalsrétturinn settur skör lægra. Er þetta að vísu formsatriði, sem litlu máli skiptir. En það sýnir samt viljann og viðleitnina að gera sem minnst úr óðalsréttarhugmyndinni, að jafnvel nafnið má ekki halda sér nema sem hornreka.

Ég vil aðeins benda hér á tvö atriði. Annað er ákvæðið um erfðir á ættaróðulum. Þar er aðeins gert ráð fyrir erfðum í beina línu og aðeins í fyrsta lið. Það er engin rök hægt að færa fram fyrir því, að þessi erfð eigi ekki að fylgja sömu ákvæðum, og gilda um erfðir almennt. Ég tel það algerlega ófullnægjandi, að óðalsrétturinn erfist aðeins í fyrsta lið, og tel nauðsynlegt að breyta þessu í réttara horf.

Hitt atriðið er það, að halda opnum möguleikunum fyrir bændur að fá ábúðarjarðirnar keyptar, ef þær um leið eru gerðar að óðalseignum. Það er því beint skilyrði fyrir því, að ég greiði þessu frv. atkv., að ákvæði 27. gr. haldist. Ég vil benda á það, að þótt við hv. þm. A.-Húnv. fylgjum frv. til samkomulags, þá er þó hér aðeins um lágmarkskröfur okkar að ræða, svo að yrði á einhvern hátt dregið úr því með breyt., svo sem með því að banna skilyrðislaust alla sölu kirkju- og þjóðjarða, þá er slíkt fullkomið banatilræði við frv. Þeir, sem vilja frv. feigt, greiða atkv. með slíkum breyt., aðrir ekki.