20.11.1935
Efri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Jón Baldvinsson:

Eins og frá er skýrt í nál., sem er sameiginlegt fyrir alla n., þá hefi ég ekki getað sætt mig við þetta frv. og mun greiða atkv. gegn því, eða að öðrum kosti mundi ég vilja gera á því stórfelldar breyt. Get ég í fám orðum sagt, á hverju það er byggt, sem sé, að ég tel mjög varhugavert að lögleiða hér einskonar óðalsrétt, stofna hér til sérstakrar yfirstéttar í sveitum landsins, eins og á að gera með þessu frv. Það er alveg farið aftan að siðunum hjá löggjafanum, ef hann ætlar að fara að lögleiða sérstök hlunnindi og réttindi handa vissum fáum mönnum í sveitum landsins, því að þótt segja megi, að allir gætu notað sér þessi réttindi, þá vita allir, að það verður ekki gert. Nú er annarsstaðar verið að reyna að jafna þennan mismun á réttindum manna. Annarsstaðar hafa óðalseigendur haft stórfelld réttindi, en nú er verið að leggja á þá háa skatta. Þeir hafa haldið stórum löndum og lendum, en aðra vantað jarðnæði, og því hefir löggjafinn lagt á þá háa skatta og tekið jarðir upp í þá. Nú er þetta ekki ennþá svo hér. Það er ekki verið að koma hér upp greifum og barónum og öðrum slíkum tignarnöfnum, en þó er farið í þá áttina. Það eru þó litlir kuggar, sem verið er ýta á flot, svolitlir lénsherrar, sem mundu skoða sig jafna hinum tignustu furstum í öðrum löndum.

Svo sé ég ekki annað, eftir því sem nú er lýst ástandinu hjá bændum, en að ekki mundu nema örfáir bændur á landinu geta gert jarðir sínar að óðalseign. En ef einhver græddi 20 þús. kr. á síld og keypti kot fyrir, þá gæti hann orðið aðalsmaður, meðan hann hrekst ekki í síldina aftur, sem gæti nú komið fyrir, því að þeir vilja oft fara þangað aftur, sem í henni hafa verið. En þá er hann bundinn af löggjöfinni, því að jörðin verður að halda áfram að vera óðalseign.

Ég held því, að það sé alveg rangt að gera þennan mismun, mynda þennan stéttamun, sem hér er verið að gera, því að þetta verður aðeins til þess, að tiltölulega fáir menn geta skoðað sig fínni stétt en almúgann á kotjörðunum, sem hefir ekki ráð á að komast undir þessi l. og heita óðalsherrar. — Þetta er höfuðástæðan fyrir því, að ég vil ekki samþ. frv., þó að annars sé ýmislegt í því, sem gæti komið að gagni. Ég ætla því ekki að greiða þessu frv. atkv., einkum þó 2. kafla þess, en verði hann samþ., þá mun ég greiða atkv. á móti frv. sjálfu.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en það er áreiðanlega spor aftur á bak og á móti þeirri stefnu, sem nú er uppi hjá demókratískum þjóðum, að samþ. þetta frv.