20.11.1935
Efri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég þarf ekki að svara þessu mikið. Þó að hv. 4. landsk. ætti sæti í n., sem fjallaði um þetta frv., þá lítur næstum því út fyrir, að hann hafi ekki lesið það eða kynnt sér efni þess. Hann var að tala um ýmislegt, sem ekki er til í frv. Það er eins og hann áliti, að nú eigi að stofna aðalsmannastétt í landinu a. m. k. lagði hann mest út af því; en ég finn ekkert orð um aðalsmannastétt í frv. Hann sagði, að þeim mönnum, sem eignuðust ættaróðul, væru veitt sérstök réttindi. Það held ég, að séu nú ekki mikil réttindi; þvert á móti verða þeir að afsala sér réttindum. Fyrir einstaklinga, sem búa á ættaróðulum, er ekki um nein ný réttindi að ræða, heldur verða þeir að búa við talsverðar kvaðir. Þegar aðstaða þeirra er borin saman við kjör ábúenda á jörðum, sem eru almanna eign, og hafa þar erfðaábúð, þá get ég ekki séð, að um verulegan mun sé að ræða. Hv. 4. landsk. talaði mikið um, að stéttamunurinn væri aukinn meðal bænda eftir þessu frv. En ég held, að það megi alveg snúa þessum orðum við, þegar borið er saman við það, sem nú n sér stað. Óðalsbændur eru til nú og leiguliðar á þjóð- og kirkjujörðum eru einnig, til, eins og kunnugt er, við misjöfn kjör. Ég held, að það verði minni munur á kjörum óðalsbænda og leiguliða, sem fá erfðaábúð, heldur en nú tíðkast.

Mér skildist hv. þm. vera eitthvað að tala um, að aðrar þjóðir legðu þunga skatta á slíka óðalsherra, eins og hér ætti að fara að skapa og hlynna að. Ég held, að fyrir honum vaki, að þessir herrar muni eignast svo sem hálfar sveitir fyrir óðul, svo mundu þeir hafa veiðigildi á haustin eins og aðalsmenn á Frakklandi gerðu á 17. öld með miklu óhófi, en þess á milli skemmta sér við að hýða „undirsátana“ á kotunum. (MJ: Þeir mega ekki hafa byssur, því nú eru að koma lög um bann við sölu skotvopna). Ég get skilið, að hv. þm. litist ekki vel á þetta. En það er bara ekkert atriði til í frv., sem gefur honum átyllu til þessara hugmynda. Þess vegna þýðir ekki að tala um málið á þeim grundvelli. — En það getur verið ástæða til þess, að nefndin athugi frv. betur á milli umr., ef einhver smáatriði í því mættu betur fara á annan hátt. Er það þarfara en að vera með þessar bollaleggingar alveg út í loftið.