25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

149. mál, stimpilgjald

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það er ekki mikill ágreiningar um þetta mál, því að allir eru á því, að það eigi að samþ. þessa heimild. Hitt er annað mál, sem hv. þm. N.-Ísf. og hv. 2. þm. Rang. bentu á, að þeir vildu helzt ekki láta þetta vara ákveðið tímabil, en það var með ráðnum huga, að n. lagði það til. Hún er þó á sama máli, að rétt sé að lækka sektirnar eitthvað, en treysti sér bara ekki til að gera það, svo að vel færi, því að þetta er stór lagabálkur, og ef ætti að fara að hreyfa þar við einhverju, þá væri hætt við, að fleira raskaðist. N. áleit, að þetta væri verk stj. og þetta væri ekki meira verk en svo, að hún gæti lokið því fyrir næsta þing. N. vildi þó ekki sleppa þessu alveg út í framtíðina, því að það gæti þá gleymzt að lagfæra l., því að þá væri alltaf verið að fara í stjórnarráðið til þess að fá eftirgjafir. En ég er ekki alveg sammála hv. þm. N.-Ísf., að vel megi finna það út, hvort l. verða brotin af vanrækslu eða fáfræði. Það eru sjálfsagt þó nokkuð margir, sem hafa skjól — sérstaklega víxla — óstimpluð og búast við, að þeir verði borgaðir án þess að þeir þurfi að fara í „protest“, spara þannig stimpilgjald og snuða ríkissjóðum það. Það eru brögð að því að víxlar komi í bankann rétt áður en þeir falla, og þá fellur á þá stimpilgjald, en menn vita ekki alltaf, hvort það stafar af vanrækslu eða vitleysu. Það verður handahófsafgreiðsla hjá stj. og fer eftir því, hvað miklir málafylgjumenn menn eru að koma þessu áleiðís. Og þegar stjórnarráðið má haga þessu eftir eigin geðþótta, þá er réttara að hafa það eins og hv. 2. þm. Rang. stingur upp á, að hafa sektina svo lága, að menn verði alltaf látnir borga hana. Og það er það, sem n. vill, að stj. athugi þetta, en sé sett tímatakmark, til þess að þetta verði að komið fyrir aftur.