15.02.1935
Neðri deild: 1. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

Starfsmenn þingsins

Forseti (JörB):

Það er fjarri því, að forsetar álíti, að hv. þm. komi ekki við, hvernig starfsmennirnir, er þeir ráða, rækja störf sín, og mér þykir vænt um, að hv. þm. virtast yfirleitt ánægðir með þá menn, sem að undanförnu hafa starfað við þingið. Hinsvegar hefir það komið fram við forsetana, eins og ég lét í ljós áðan, að æskilegra hefði verið að haga starfsmannaráðningunni nokkuð á annan hátt, sérstaklega ráðningu dyravarða; vitanlega þó ekki í því skyni að skapa lögreglulið eða lífvörð um þm., enda væri dyravarðahópurinn nokkuð smávaxinn, ef um nokkuð slíkt væri að ræða. Ég vil beina því mjög til hv. þm. að lengja ekki umr. um þetta atriði. Mér er mjög óljúft að gera hér að umtalsefni, hvernig þessir starfsmenn, fremur en aðrir við þingið, hafa rækt störf sín; ég vil vænta, að þau hafi verið yfirleitt vel rækt af þeirra hálfu.